75 prósent telja eftirlit í Leifsstöð of strangt

Þrír af hverjum fjórum lesendum Túrista telja að öryggisreglur um skóbúnað á Leifsstöð ættu ekki að vera svona strangar.

Allir farþegar á Keflavíkurflugvelli þurfa að fara úr skóm við öryggisleit. Öfugt við það sem gengur og gerist á flugvöllum Norðurlandanna og víðar í Evrópu eins og Túristi greindi frá fyrr í þessum mánuði. Í kjölfarið voru lesendur síðunnar spurðir hvort þeir teldu réttlætanlegt að reglur um skó í öryggisleit væru harðari hér en á meðal nágrannaþjóðanna. Hátt í sex hundruð svör fengust og niðurstaðan er afgerandi. Sjötíu og fimm prósent lesenda Túrista eru á þeirri skoðun að íslenskar reglur eigi ekki að vera strangari.

Það eru forsvarsmenn Keflavíkurflugvallar, Isavia, sem ákveða hvaða öryggisreglur gilda en ekki stjórnvöld. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu þá er ein af ástæðunum fyrir þessu stranga eftirliti sú að það styttir biðtímann í öryggishliðinu þar sem málmleitartækin sendi síður frá sér viðvörun þegar fólk er skólaust. Upplifun breskra yfirvalda er hins vegar þveröfug því þar er unnið að því að hætta handahófskendu eftirliti með skóm því það er talið lengja biðina á flugvöllunum samkvæmt frétt The Telegraph. Í frétt blaðsins er því líka haldið fram að eftirlit með skóbúnaði valdi miklum pirringi meðal flugfarþega.

Sömu ákvæði gilda hér og í Bandaríkjunum samkvæmt upplýsingum Túrista hjá Flugöryggisstofnun Bandaríkjanna.

TENGDAR GREINAR: Mesta aukningin á Keflavíkurflugvelli
NÝJAR GREINAR: Að búa – á Louisiana

Mynd: Wikicommons