Að búa – á Louisiana

Híbýli mannanna eru af öllum stærðum og gerðum eins og sést á Louisiana safninu í Danmörku.

Einhversstaðar verðum við öll að búa. Það eru þó ekki allir til í að hreiðra um sig í hefðbundnu íbúðarhúsnæði og svo eru aðrir sem hafa ekki ráð á einu slíku. Af þessum sökum er að finna alls kyns mannabústaði og er nokkrum af þeim athyglisverðustu og best heppnuðu gerð skil á Louisiana safninu á Norður-Sjálandi um þessar mundir.

Á sýningunni, sem kallast Living, er líka að finna dæmisögur af kommablokkunum í Rússlandi, híbýlum Róma-fólksins í Moldóvu og Rúmeníu og skipulagsmálum í Nýju-Delhí. Einnig er reynt að átta sig á því hvað koma skal í arkitektúr og skipulagsmálum.

Sýningin verður uppi fram í byrjun október og það er óhætt að mæla með haustlita- og menningarreisu til Humlebæk fyrir þá sem setja stefnuna á gömlu höfuðborgina á næstunni. Enda tekur ekki nema klukkutíma að komast frá miðborg Kaupmannahafnar og að dyrum Louisiana safnsins.