Íbúar í Hollywood hæðum pirraðir á túristum

Nágrannar skiltisins fræga í Los Angeles hafa fengið nóg.

Hvíta skiltið í hæðunum við Hollywood í Los Angeles er sennilega þekktasta kennileiti borgarinnar. Þeir eru því margir ferðamennirnir sem vilja komast eins nálægt þessum risavöxnu níu stöfum og hægt er.

Það er þó ekki auðvelt því hringinn í kring liggur girðing og verðir eru á svæðinu allan sólarhringinn. Það stoppar þó ekki fólk frá því að gera sér ferð eftir þröngum og bröttum vegum upp í hæðina þar sem skiltið stendur.

Þessi átroðningur veldur hins vegar miklum pirringi meðal íbúa svæðisins samkvæmt frétt USA Today. Einn þeirra segir í viðtali við blaðið að það geti tekið hann fjörtíu mínútur að komast út úr innkeyrsluna heima hjá sér því hún sé alla jafna full af túristum.

Vilja íbúarnir því að borgaryfirvöld grípi til aðgerða til að beina traffíkinni á önnur svæði þaðan sem skiltið sést nógu vel. Talsmaður borgarinnar segir þó að íbúarnir verði að átta sig á því að skiltið sé þeirra Eiffelturn og muni því alltaf laða til sín túrista.

NÝJAR GREINAR: Láta flugmennina fá Ipad til að spara eldsneyti
TILBOÐ: Kaupmannahöfn: Hotel Sct Thomas – 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista

Mynd: Fabio Ikezaki/Creative Commons