Langt í land hjá Iceland Express þrátt fyrir bætingu

Svona gekk íslensku flugfélögunum að halda áætlun í síðasta mánuði.

Á síðasta þriðjungi júnímánaðar fór innan við fimmta hver vél Iceland Express í loftið frá Keflavík á réttum tíma samkvæmt Stundvísitölum Túrista. Báðust forsvarsmenn félagsins opinberlega afsökunar á seinaganginum og sögðu markmiðið vera að þrjú af hverjum fjórum flugum héldu áætlun. Síðan þá hefur frammistaðan batnað til muna eins og sjá má í töflunni hér að neðan. Þó er langt í land að félagið nái þessu markmiði sínu og að teljast álíka áreiðanlegt og helsti keppinauturinn. Enda hélt Icelandair áætlun í 78 prósent tilvika þegar brottfarir frá Keflavík eru skoðaðar.

Meira en hálftíma bið

Farþegar Iceland Express hafa þurft að sýna mikla biðlund undanfarnar vikur og mældist biðin eftir brottförum félagsins, síðustu tíu dagana í júní, um klukkutími að jafnaði. Í júlí hefur ástandið skánað töluvert og meðalbiðtíminn nú um 34 mínútur. Hjá Icelandair er biðin, eftir flugtaki frá Keflavík, um átta mínútur að jafnaði eins og sjá má í töflunni hér að neðan.

Stundvísitölur Túrista fyrir júlí

JÚLÍ Hlutfall brottfara á tíma Meðalseinkun brottfara Hlutfall koma á tíma
Meðalseinkun koma Hlutfall ferða á tíma
Meðalbið alls
Icelandair 78% 8 mín 73% 7 mín 75% 7 mín
Iceland Express 38% 34 mín 36% 41 mín 37% 37 mín

Stenst ekki evrópskan samanburð

Opinberar tölur um stundvísi flugfélaga liggja ekki víða frammi. Þó má finna gagnlegar upplýsingar á heimasíðunni Flightstats yfir áreiðanleika margra flugfélaga, þar á meðal Icelandair og mælist stundvísi brottfara félagsins jafn há þar og hjá Túrista, eða 78 prósent. Upplýsingar Flightstats um Iceland Express eru hinsvegar of takmarkaðar og því ekki hægt að byggja á þeim. Nokkuð ítarleg leit Túrista í gagnagrunni Flightstats leiðir í ljós að ekkert af nafntoguðustu flugfélögum Evrópu gerir sig sekt um að halda ekki áætlun í minna en sextíu prósent tilvika. Frammistaða Iceland Express virðist því vera undantekning í álfunni.

Taflan hér að neðan sýnir nokkur dæmi um hlutfall brottfara á tíma hjá nokkrum evrópskum flugfélögum. Tölurnar fyrir íslensku félögin eru byggðar á Stundvísitölum Túrista í júlí en hinar eru fengnar á vef Flightstats og sýna stundvísina frá fimmtánda maí og fram í miðjan júlí.

Samanburður á stundvísi íslensku félaganna og nokkurra evrópskra.

1. German Wings – 90%
2. Norwegian – 88%
3. Easy Jet – 84%
4. Aeroflot – 80%
5. Icelandair -78%
6. SAS – 78%
7. Lufthansa- 74%
8. British Airways- 73%
9. Iberia – 63%
10. Iceland Express – 38%

Túristi mun halda áfram að fylgjast með stundvísi flugfélaganna og birta niðurstöðurnar reglulega.

TENGDAR GREINAR: Stundvísitölur: Litlar framfarir hjá Iceland Express
TILBOÐ: Kaupmannahöfn: Hotel Sct Thomas – 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista