Láta flugmennina fá Ipad til að spara eldsneyti

Níðþungar handbækur flugmanna United Airlines heyra brátt sögunni til.

Þær vega nokkur kíló bækurnar sem flugmenn bandaríska flugfélagsins United Airlines taka með sér í vinnuna. Og nú þegar verð á eldsneyti er í hæstu hæðum þá kostar það sitt að fljúga með þessi rit heimshorna á milli. Forsvarsmenn félagsins hafa því gripið til þess ráðs að skipta doðröntunum út fyrir 700 gramma Ipad tölvur sem hafa að geyma allar þær upplýsingar sem flugmennirnir þurfa að hafa við höndina.

Samkvæmt frétt The Telegraph er talið að félagið muni spara sér rúma milljón lítra af eldsneyti á ári við þessa breytingu.

Talsmaður fyrirtækisins segir fleiri kosti við tölvuvæðinguna, til dæmis verði mun einfaldara fyrir flugmennina að finna réttu upplýsingarnar nú þegar þær eru á rafrænu formi. Eins verði ódýrara að uppfæra gögnin því ekki þurfi lengur að prenta út allt heila klabbið.

NÝJAR GREINAR: Flugfélög sem hafa ekki sætaröð númer 13

Mynd: afagen/Creative Commons