Svar við athugasemd Isavia

Svar Túrista við athugasemd Isavia við tveggja mánaða gamalli frétt.

Í gær sagði Túristi frá því að í Leifsstöð þyrftu allir farþegar að fara úr skóm í öryggiseftirlitinu öfugt við það sem tíðkast á flugvöllum frændþjóðanna. Í niðurlagi fréttarinnar var vitnað í aðra Túristagrein frá 15. júní sl. þar sem fram kom að biðtíminn við öryggisleitina á Keflavíkurflugvelli væri allt að þrefalt lengri en á Kaupmannahafnarflugvelli. Vísir.is vitnaði í gær í gömlu fréttina í sinni umfjöllun um þetta stranga eftirlit með skóm í Leifsstöð. Í framhaldinu birtist svo athugasemd á vef Vísis frá Isavia, fyrirtækinu sem rekur Keflavíkurflugvöll. Þar segir upplýsingafulltrúi fyrirtækisins að Túristi fari ekki rétt með enda hafi engar rannsóknir verið gerðar á biðtímanum við öryggishliðin.

Þessi athugasemd kom aðstandanda Túrista í opna skjöldu. Túristi hafði sent upplýsingafulltrúa Isavia fyrirspurn um biðtíma við öryggishliðin á Keflavíkurflugvelli í byrjun maí síðastliðin. Þá var Túrista svarað að meðalbiðtíminn í vopnaleitinni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar væri 7-10 mínútur og jafnframt að miðað væri við að halda þjónustustingu þar, eins og það var orðað í svarinu. Aldrei kom fram í svörum Isavia að meðalbiðin hefði ekki verið mæld líkt og sagt er í athugasemdinni sem Vísir birti. Upplýsingafulltrúinn bætti því svo við að oft væri biðin minni og oft meiri. Þessari viðbót gat Túristi í upprunalegu fréttinni sem birtist í júní. Isavia hafði engar athugasemdir við þá frétt. Tveimur mánuðum síðar gerir fyrirtækið svo athugasemdir sem eiga ekki við rök að styðjast.

Það vekur reyndar líka athygli við athugasemd Isavia á Vísi að þar segir að það sé yfirlýst markmið starfsmanna Isavia að biðtíminn sé aldrei lengri en sjö til tíu mínútur. Í lokin segir hins vegar upplýsingafulltrúinn að biðtíminn hafi aldrei verið rannsakaður og því séu ekki til neinar tölur um hann. Þessi fullyrðing vekur upp spurningar um hver tilgangurinn sé að setja sér mælanlegt markmið en gera svo ekkert til að kanna hvort það náist eða ekki?

Túristi hefur í tvö ár birt ferðatengdar greinar og fréttir ásamt tilboðum frá ýmsum aðilum innan ferðaþjónustu og mun halda því áfram enda hafa undirtektir lesenda farið langt fram úr björtustu vonum.

Fyrir hönd Túrista,
Kristján Sigurjónsson