„Takið af ykkur skóna“ – en bara í Leifsstöð

Öryggisleitin á Keflavíkurflugvelli er ítarlegri en hjá nágrannaþjóðunum.

Farþegar sem fara um Leifsstöð þurfa undantekningarlaust að fara úr skóm við öryggisleit. Á flugvöllunum í Kaupmannahöfn, Osló, Stokkhólmi og Helsinki gildir þessi regla ekki samkvæmt upplýsingum Túrista. Þó mega öryggisverðir þar biðja fólk um að fara úr skóm, til dæmis ef þeir líta út fyrir að vera með málmi í.

Í Bretlandi gilda strangari reglur en á Norðurlöndunum en þar þarf að skanna skó ákveðins hluta farþeganna, en þó ekki allra. Sú regla, ásamt öðrum, hefur verið harðlega gagnrýnd af forsvarsmönnum flugfélaganna þar í landi og þessa dagana kannar bresk þingnefnd hvort hverfa eigi frá þessu handhófskennda eftirliti. Í Bandaríkjunum eru hins vegar gerðar strangar kröfur líkt og hér á landi.

Segja eftirlitið flýta fyrir

Alþjóðlegar reglur banna farþegum að taka með sér í handfarangri vökva í íláti sem er meira en hundrað millilítrar. Reglur um að fjarlægja skó, belti og tölvur úr töskum eru hins vegar að mestu á ábyrgð flugmálastjórna hvers lands eða flugvallanna sjálfra. Hér á landi eru það forsvarsmenn Keflavíkurflugvallar, Isavia, sem ákveða hvaða öryggisreglur gilda.

Samvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu eru ástæðurnar fyrir þessu stranga eftirliti með skóm þær að bandarískar reglur geri ráð fyrir handahófskenndri leit í skóbúnaði farþega á leið vestur um haf. Og þar sem þessir farþegar fara í gegnum öryggishliðin á sama tíma og þeir sem eru á leið til meginlands Evrópu þá er eitt látið yfir alla ganga. Það verður hins vegar að teljast nokkuð öruggt að nákvæmlega sama staða komi upp á flugvöllunum í kringum okkur, þ.e.a.s. að farþegar á leið til bandarískra og evrópskra borga fari í gegnum flugstöðvarnar á sama tíma. Frændþjóðirnar telja það þó ekki nægt tilefni til að skanna skóbúnaðinn líkt og gert er hér á landi.

Hin forsendan sem Isavia gefur fyrir eftirlitinu er að reynslan sýni að þetta flýti fyrir afgreiðslu í öryggisleitinni þar sem málmleitartækin sendi síður frá sér viðvörun þegar fólk er skólaust. Þau rök eru athyglisverð í ljósi fréttar Túrista frá því fyrr í sumar um að meðalbiðtíminn í öryggisleitinni Keflavík er þrefalt lengri en á Kaupmannahafnarflugvelli.

Engar formlegar kvartanir hafa borist Isavia vegna þessa verklags segir í svari fyrirtækisins við fyrirspurn Túrista.

 

TENGDAR GREINAR: Allt að þrefalt lengri bið í Keflavík en á KastrupFlugvellir sem hampa snjallsímum
TILBOÐ: Kaupmannahöfn: Hotel Sct Thomas – 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista

Share |