Tyrkland vinsælt í Danmörku

Sólþyrstir Danir hafa fjölmennt til Tyrklands í sumar.

Það eru ekki lengur Grikkland og Spánn sem lokka til sín flesta danska ferðamenn á sumrin. Í ár hafa það nefnilega verið sólarstrendurnar í Tyrklandi sem hafa þótt mest spennandi í augum frænda okkar.

Samkvæmt frétt Berlingske í Danmörku eru forsvarsmenn stærstu ferðaskrifstofanna þar í landi sammála um að Tyrkland hafi vinningin í sumar og að hátt í þrjú hundruð þúsund Danir hafi eytt hluta af fríinu á tyrkneskri sólarströnd.

Hagstætt verðlag í Tyrklandi er sagt vera ein helsta ástæðan fyrir vinsældunum en einnig hefur óróleikinn í Grikklandi haft sitt að segja.

Þó hlutur Spánar hafi farið minnkandi þá nýtur sólareyjan Mallorca ennþá mikillar hylli meðal Dana en það er athyglisvert að engin af stærstu ferðaskrifstofunum hér á landi býður uppá ferðir þangað á meðan Tyrkland og Grikkland eru víða í boði.

TENGDAR GREINAR: 10 vinsælustu ferðamannalöndin

Mynd: Sindre Sørhus/Creative Commons