Ætla að birta tölur um stundvísi sína

Iceland Express ætlar að birta vikulega upplýsingar um hversu vel ferðir fyrirtækisins halda áætlun. Ekkert verður hins vegar úr flugi félagsins til Orlando í vetur.

Óstundvísi Iceland Express hefur verið töluvert í fréttum í sumar. Stundvísitölur Túrista hafa til dæmis sýnt að í júní var innan við fimmta hver ferð félagsins frá Leifsstöð á tíma. Nú í lok sumar er ástandið hins vegar betra samkvæmt útreikningum Túrista og nærri sex af hverjum tíu vélum, til og frá Keflavík, eru á tíma.

Fyrirtækið ætlar nú sjálft að birta vikulega upplýsingar um árangur varðandi stundvísi og áætlanir, eins og það er orðað á heimasíðu fyrirtækisins. Fyrstu tölur eru væntanlegar þar á morgun.

Hætt við flug til Flórída

Í síðasta mánuði tilkynnti forstjóri Iceland Express að frá og með byrjun október ætlaði fyrirtækið að bjóða vikulega uppá ferðir til Orlando í Bandaríkjunum. Í gær leitaði Túristi svara hjá fyrirtækinu um hvers vegna ekki væri hægt að bóka far til Orlando á heimasíðu félagsins þegar svo stutt væri í fyrstu brottför. Svarið barst í hádeginu í dag og þar segir Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi Iceland Express, að hætt hafi verið við flug til Orlando. Ástæðunar séu þær að eftirspurn hópa eftir flugi til Flórída hafi ekki verið í samræmi við væntingar og eins hafi eldsneytisverð haldist hátt.

NÝJAR GREINAR: Hræódýr hádegismatur í Köben

Mynd: Deanster/Creative Commons