Ferðaminningar ferðamálastjóra

Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri, er víðförul kona sem lætur sig dreyma um frekari ferðalög til framandi landa. Hún segir hér frá ferðum sínum út fyrir landssteinana.

Fyrsta ferðalagið til útlanda:

Ég fluttist ásamt fjölskyldu minni til Bandaríkjanna þegar ég var fjögurra ára, þegar foreldrar mínir fóru í sérnám, hvort á sínu sviði. Ég man auðvitað ekkert eftir ferðinni sjálf, en hún er þeim mun minnisstæðari foreldrum mínum, vegna þess að þegar á Kennedyflugvöll kom og á meðan þau biðu eftir farangrinum, þá hvarf ég. Þegar þau voru búin að ræsa allt eftirlitskerfið á flugvellinum í leit að mér kom ég trítlandi; þau höfðu sem sé kennt mér að greina merki og enskt orð fyrir kvennasalerni – og ég brugðið mér afsíðis. Mér fannst þetta víst ekkert tiltökumál sjálfri, en þarna sýndi sig enn og aftur að örlítil þekking getur verið hættuleg í óvitahöndum.

Best heppnaða utanlandsferðin:

Augsýnilega hlýtur best heppnaða utanlandsferðin að vera þegar ég fór til fundar við dóttur mína í Kína árið 2004 – í það minnsta hefur enginn ferðamaður borið jafn mikil verðmæti með sér heim og ég gerði þá.

Verst heppnaða utanlandsferðin:

Nú er af ýmsu að taka, en líklegast er það þegar mér var boðið að halda erindi á heimsþingi UNESCO um lífsiðfræði í Gíjón, fékk alvarlega magaflensu skömmu eftir komuna, lá veik megnið af tímanum og tókst svo að ata mig tjöru í andlitinu kvöldið áður en ég átti að halda erindið. Löng saga.

Tek alltaf með í fríið:

Höfuðljós (algerlega ómissandi þegar ferðast er til landa þar sem rökkrið líður á örskotsstundu); góð lesning; minnisbók; magatöflur og spritt (sjá hér að ofan).

Vandræðalegasta uppákoman í útlöndum:

Tengist þótt ótrúlegt megi virðast ekki Gíjón, heldur Malawivatni og verður ekki rakin hér.

Besti maturinn sem ég hef smakkað á ferðalagi:

Hvernig er hægt að gera upp á milli steiktra lirfa í Victoria Falls, Dúrían ávaxtar hjá götusala í jaðarhverfi Singapúr eða kaldra franskra kartaflna gegnum rútuglugga við landamæri Malawi og Mósambík? Kannski ekki bestu máltíðirnar, en eftirminnilegar. Ætla samt að nefna morgunverð á sushistað í Tokyo, eftir að hafa vaknað kl. 4 að morgni til að skoða japanskan fiskmarkað. Ógleymanlegt.

Uppáhalds staðurinn í útlöndum:

Allir staðir veraldar sem ég á eftir að heimsækja. Og þeir eru margir.

Draumafríið:

Þau eru mörg!

Löng heimsókn til Kína með dóttur minni

Gönguferð um Nepal

Yfirreið um Indland

Ferð um Vestur-Afríku

Þvælingur um suðurhluta Afríku með viðkomu á Kilimanjaro og Zanzibar

Upplifunarferð til Suður-Ameríku

Sigling um eyjar Karibíska hafsins