Hingað er ferðinni heitið í vetur

Til þessara borga verður beint flug frá Keflavík næstu mánuði.

Washington er eini nýi áfangastaðurinn sem flogið verður beint til héðan í vetur.
Umferðin um Keflavíkurflugvöll minnkar um helming á veturna. Áfangastöðunum sem við getum flogið til beint fækkar því töluvert og erlendu flugfélögin sem hingað fljúga á sumrin láta sig líka öll hverfa, nema SAS.

Þegar dagskrá Icelandair og Iceland Express fyrir komandi vetur er skoðuð kemur í ljós að höfuðborg Bandaríkjanna er eina nýja borgin á listunum. En Icelandair hóf þangað flug í vor og heldur því áfram í vetur.

Meðal annarra breytinga á vetraráætlun félagsins er daglegt flug til New York og fleiri ferðir til Seattle, Parísar og Kaupmannahafnar.

Það gleður svo væntanlega þá sem ætla til Manchester og Glasgow að í stað sameinaðs flugs til þessara borga verður nú flogið þangað beint, allt að þrisvar í vikur. Flugi til Munchen verður haldið áfram eftir áramót líkt og gert var í fyrra.

Iceland Express mun fljúga daglega til Kaupmannahafnar og London í vetur ásamt þremur vikulegum ferðum til New York og tveimur til Berlínar. Í haust verður einnig flogið til Oslóar, Varsjár og Alicante.

SAS heldur uppteknum hætti og flýgur héðan til Oslóar.

Það er von til þess að nýjungarnar verði fleiri á sumardagskrá félaganna því nú þegar hefur Icelandair tilkynnt um flug frá og með 10. maí til bandarísku borgarinnar Denver.

TENGDAR GREINAR: Sýna vetrarflugi til Íslands ekki áhugaMesta aukningin á Keflavíkurflugvelli
TILBOÐ: Kaupmannahöfn: Hotel Sct Thomas – 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista

Mynd: Jake McGuire