Hræódýr hádegismatur í Köben

Kannski ódýrasta smurbrauðið í miðborg Kaupmannahafnar.

Réttir dagsins freista líka yngri gesta staðarins.
Heimsókn á smurbrauðsstað er fastur liður á dagskrá flestra þeirra sem heimsækja Kaupmannahöfn. Á vinsælustu og bestu stöðunum kosta sneiðarnar á bilinu 50 til 90 danskar krónur og það er því kannski ekki hægt að leyfa sér meira en einn danskan frúkost í ferðinni.

Þeir sem vilja hins vegar bæta um betur geta kannski sætt sig við ögn einfaldari útgáfur af þessum danska klassíska rétti og litið við á TP Smørrebrød, rétt við Nýhöfn. Þar kostar lítil sneið 11 danskar, þær stærri 25 krónur og heitu réttirnir frá 39 krónum. Boðið er uppá gos og vatn en öl er ekki serverað á staðnum.

TP Smørrebrød líkist kannski meira kaffiteríu að innan en hefðbundnum dönskum hádegisveitingastað en verðlagið og vinalegt viðmót smurbrauðsjómfrúarinnar bæta upp fyrir látlausar innréttingarnar.

Túristi mælir því óhikað með heimsókn á þennan stað fyrir þá sem fá ekki nóg af smurbrauði en þurfa að passa uppá krónurnar.

TP Smørrebrød er við Holbergsgade 22 (sjá á korti). Það er opið frá sjö á morgnana til klukkan 16.

TENGDAR GREINAR: Svona er hægt að fylla farþegarýmið á sem stystum tíma
TILBOÐ: Kaupmannahöfn: Hotel Sct Thomas – 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista

Myndir: Túristi