Ferðir Iceland Express stóðust sjaldnast áætlun í júní en ástandið er mun betra nú í lok sumars.
Miklar seinkanir á flugi setja ekki aðeins ferðaplön farþegana úr skorðum heldur geta þær einnig verið þeim kostnaðarsamar.
Það er því neytendum til hagsbóta að tölur um stundvísi flugfélaganna birtist opinberlega. Í sumar hefur Túristi daglega reiknað út hversu mörg flug Icelandair og Iceland Express koma og fara á réttum tíma til og frá Leifsstöð, og hversu löng seinkunin er að jafnaði. Slíkar tölur hafa hingað til ekki verið farþegum aðgengilegar á þennan hátt.
Í upphafi mælinga átti Iceland Express mjög erfitt með að halda áætlun. Aðeins 17 prósent af vélunum fóru á umsömdum tíma og farþegarnir þurftu að sætta sig við klukkutíma seinkun að meðaltali. Fyrirtækið baðst í framhaldinu afsökunar á seinaganginum.
Nú í lok sumars hefur frammistaðan batnað til muna og nærri sex af hverjum tíu ferðum halda áætlun. Meðalseinkunin eru komin niður í 24 mínútur. Hjá Icelandair koma og fara þoturnar í nærri áttatíu prósent tilvika á réttum tíma og seinkunin er 11 mínútur að jafnaði eins og sjá má á töflunni hér að neðan. Munurinn á stundvísi félaganna er því töluverður.
Stundvísitölur Túrista í seinni hluta ágústmánaðar, tölur í sviga eru niðurstöður fyrri hluta mánaðarins.
16-31 ágúst | Hlutfall brottfara á tíma | Meðalseinkun brottfara | Hlutfall koma á tíma |
Meðalseinkun koma | Hlutfall ferða á tíma |
Meðalbið alls |
Icelandair | 79% (90%) | 9 mín (3 mín) | 76% (83%) | 12 mín (6 mín) | 78% (86%) | 11 mín (5 mín) |
Iceland Express | 59% (48%) | 24 mín (27 mín) | 57% (45%) | 25 mín (26 mín) | 58% (46%) | 24 mín (26 mín) |
Share |
Smelltu hér til að sjá Stundvísitölur Túrista fyrir sumarið.
Um útreikningana: Daglega reiknar Túristi út hversu mikill munur er á áætluðum komu- og brottfaratímum og þeim tímasetningum sem gefnar eru upp fyrir lendingar og flugtak á heimasíðu Keflavíkurflugvallar. Þar sem seinkun um korter telst vera innan skekkjumarka í fluggeiranum þá eru fimmtán mínútur dregnar af öllum seinkunum sem eru meira en stundarfjórðungur.