Áhrifamesti listamaður heims sýnir á Louisiana

Sýning á verkum Kínverjans Ai Weiwei opnar í nágrenni Kaupmannahafnar í nóvember.

Listaverk Ai Weiwei hafa vakið aðdáun víða um heim en barátta hans fyrir lýðræði í heimalandinu hefur skipað honum á bekk með óvinum kínverska ríkisins. Var hann því hnepptur í áttatíu og eins dags varðhald í vor en látinn laus eftir kröftugleg mótmæli víða um heim. Tímaritið Art Review setti hann svo nýverið efstan á blað yfir áhrifamestu listamennina um þessar mundir.

Ferðafólki í Kaupmannahöfn og nágrenni gefst gott færi á að virða fyrir sér listsköpun þessa kínverska andófsmanns á næstu mánuðum því þann 18. nóvember opnar sýning á Louisiana safninu á nokkrum af þekktustu verkum hans. Stendur hún fram í miðjan febrúar.

Það tekur um klukkutíma að ferðast frá miðborg Kaupmannahafnar og til bæjarins Humlebæk þar sem Louisiana safnið er. Það margborgar sig að kaupa í einum pakka lestarmiða og aðgöngumiða á safnið en þeir eru til sölu á öllum lestarstöðvum höfuðborgarsvæðisins og kosta 176 danskar (um 3800 krónur).

TENGDAR GREINAR: Vegvísir – Kaupmannahöfn
NÝJAR GREINAR: Það sem pirrar flugfreyjur mest
TILBOÐ: 10% afsláttur á ódýru hóteli í Kaupmannahöfn

Mynd: Tate Photography