Bestu borgaranir í New York

Fjórir hamborgarastaðir sem matgæðingar New York borgar mæla með.

Ætli stór hluti þeirra sem leggja leið sína til New York gæði sér ekki á alla vega einum hamborgara í ferðinni. Hér eru fjórar hamborgarabúllur sem skríbentar matarsíðunnar ny.eater.com mæla með við lesendur ferðablaðs The Times. Þeir sem vilja safaríkan og góðan borgara í næstu New York reisu ættu því að leita uppi þessa fjóra staði og sleppa því að fara inn á eitt af útibúum heimsþekktu hamborgarastaðanna á Manhattan.

Shake Shack

Hér er hakkað Angus nautakjöt sett í mjúka brauðbollu ásamt sósu og smá salati og herlegheitunum skolað niður með sjeik. Einfalt og ódýrt og vinsældirnar hafa verið svo miklar að Shake Shack staðirnir eru nú orðnir fimm í New York.

Sá fyrsti er við Madison Square Park og þar er tilvalið að koma við og gæða sér á þjóðarrétti Bandaríkjamanna. Einfaldur borgari er á um 500 íslenskar og tvöfaldur um 850.

Shake Shack er á níu stöðum í New York, sjá á heimasíðunni: www.shakeshack.com

Minetta Tavern

Það getur verið erfitt að fá borð á þessu vinsæla steikhúsi en þá er bara að koma snemma kvölds og setjast við barinn og panta sér Black Label Burger hússins. Sá er víst virði allra þrjú þúsund krónanna sem hann kostar enda á hann meira skilt við stóra steik en venjulegan hamborgara. Kjötið er steikt uppúr smjöri og borið fram í mjúkri bollu með karamelluseruðum lauk.

Minetta Tavern er við 113 MacDougal St.

www.minettatavernny.com

Corner Bistro

Bræddur ostur og stökkt beikon eru nautahakkinu til halds og trausts í brauðbollunni sem partífólkið í West Greenwich Village pantar sér á þessum vinsæla bar. Borgari hússins kostar um 800 krónur (6,75 dollara) og vinsælasti drykkurinn, bjórinn, kostar um þrjú hundruð (2,5 dollara).

Corner Bistro er við 331 West 4th St

www.cornerbistrony.com

Social Eatz

Hér er það Bibimbap borgarinn sem mælt er með að fólk panti. Sá er svo sannarlega ekki hefðbundinn því hugmyndin sem býr að baki þessum borgara er sótt í kóreskan hrísgrjónarétt. Kjötið er steikt í sætri chili sósu og ofan á eru settar baunaspírur, gúrkur, gulrætur, hægeldað egg og heimalagað majónes. Þetta er borið fram í brioche brauðhnúðum og kostar um 1400 krónur.

Social Eatz er við 232 East 53nd S

www.socialeatz.com

HÓTEL: Smelltu til að gera verðsamanburð á hótelum í New York

Mynd: Shake Shack