Ertu gulur, fjólublár eða blár flugfarþegi?

Ný leið til að stytta biðina í öryggishliðinu.

Svona verður vopnaleitin í Leifsstöð kannski innan fárra ára.
Með tilkomu sjálfsafgreiðsluvéla og netinnritunnar er orðið auðveldara að tékka sig inn í flug þó biðraðirnar við afgreiðsluborðin geti ennþá verið óskaplega langar.

Við öryggishliðið hefur tæknin hins vegar ekki stytt biðina og ennþá þurfa farþegar að setja vökva ofan í poka, taka tölvur upp úr töskum, losa beltið og jafnvel fara úr skónum. Upphaf á ferðalagsins getur því reynt á þolinmæði farþeganna og því vilja alþjóðasamtök flugfélaga, IATA, breyta.

Nýlega hófust prófanir á nýjum vopnaleitartækjum sem samtökin hafa látið þróa og vonast til að muni stytta biðina við öryggishliðin.

Þar eiga þeir sem ferðast oft að ganga inn um blátt öryggishlið, hefðbundnir farþegar fara um fjólubláa hliðið en þeir sem taldir eru grunsamlegir þurfa að fara í gegnum það gula.

Síðan ganga allir í gegn án þess þó að þurfa fara út skóm, taka af sér belti eða setja vökva í poka því á leiðinni eru nokkrir skannar sem leita að grunsamlegum hlutum á farþeganum og í handfarangri.

Framkvæmdastjóri IATA segir í viðtali við AP fréttaveituna að í dag fari alltof langur tími í vopnaleit á 99,9 prósent farþega og með því að bæta tæknina og nota þær upplýsingar sem til eru um farþegana þá megi stytta afgreiðslutímann töluvert.

Nýja kerfið er nú til prufu á flugvöllum í Dallas og Miami en markmiðið er að á næstu þremur til sjö árum verði þessi tæki kominn í gagnið út um allan heim.

Hér er myndband sem sýnir hvernig vopnaleit framtíðarinnar fer fram:

http://www.youtube.com/watch?v=uie1Ijyr8DE

TENGDAR GREINAR: Við skoðum skó betur en aðrir
TILBOÐ: 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista á ódýru hóteli í Kaupmannahöfn

Myndir og myndband: IATA