Farið til Danmerkur hækkar ólíklega við stjórnarskiptin

Útlit er fyrir að jafnaðarmenn hafi fallið frá áætlunum sínum um nýjan flugskatt.

Í tvö ár hafa jafnaðarmenn í Danmörku haft það á stefnuskrá sinni að leggja nýtt gjald á alla farþega sem fljúga frá dönskum flugvöllum. Átti gjaldið að nema 75 dönskum krónum sem samsvarar rúmum 1500 íslenskum. Heimferðin frá Danmörku hefði því væntanlega hækkað fyrir okkur Íslendinga í kjölfarið.

Í dag þegar málefnasamningur ríkisstjórnarinnar, sem jafnaðarmenn veita forystu, var lagður fram kom í ljós að þar er ekkert að finna um flugskattinn. Nýr samgönguráðherra í Danmörku vildi hins vegar ekki staðfesta við fjölmiðla að ekkert yrði úr gjaldtökunni.

Forsvarsmenn danska fluggeirans hafa fundið gjaldinu flest til foráttu og spáð því að það myndi draga mjög úr farþegafjöldanum.

TENGDAR GREINAR: Keflavík tíundi vinsælasti áfangastaðurinn til og frá Kastrup
TILBOÐ: Kaupmannahöfn: Hotel Sct Thomas – 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista

Mynd: Wonderful Copenhagen