Fimmti hver ferðast ótryggður

Þeir eru margir bresku túristarnir sem ferðast án trygginga.

Það getur kostað skildinginn að veikjast eða slasast alvarlega í útlöndum, til dæmis ef framlengja þarf dvöl vegna veikinda. Bresk stjórnvöld hafa því áhyggjur af niðurstöðum könnunar sem sýna að tuttugu prósent landsmanna ferðast til útlanda ótryggðir. Álíka hátt hlutfall Breta telur að Evrópska sjúkratryggingakortið greiði götu þeirra ef leita þarf læknisaðstoðar í álfunni samkvæmt frétt Travelmole.

Veitir takmörkuð réttindi

Allir borgarar á Evrópska efnahagsvæðinu geta sótt um kortið og eru það Sjúkratryggingar Íslands sem gefa það út hér á landi. Evrópska sjúkratryggingakortið veitir aðgang að hinu opinbera heilbrigðiskerfi EES-landanna og fær ferðamaðurinn aðstoð samkvæmt reglum dvalarlandsins. Og þar sem hlutur sjúklinga er mismikill í sjúkra- og lyfjakostnaði eftir löndum þá getur læknishjálpin kostað ferðamanninn töluverðar upphæðir.

Evrópska sjúkratryggingakortið veitir hins vegar ekki rétt til heimflutnings til Íslands og bætir ekki kostnað sem verður til vegna breytinga á ferðaáætlun, til dæmis kaup á nýjum flugmiða eða viðbótar gistingu á hóteli samkvæmt því sem kemur fram á vef Sjúkratrygginga Íslands.

En Túristi spyr að lokum: Hefurðu farið í utanlandsferð á síðustu 5 árum án þess að vera með ferðatryggingu? Vinsamlegast svarið í dálkinum hægra megin.

NÝJAR GREINAR: 10 bestu evrópsku borgirnar fyrir sælkera
TILBOÐ: Kaupmannahöfn: Hotel Sct Thomas – 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista

Mynd: Kenjonbro/Creative Commons