Fjórði hver hefur farið til útlanda ótryggður

Margir hafa farið til útlanda án þess að vera með ferðatryggingu.

Fjórði hver lesendi Túrista hefur farið til útlanda á síðastliðnum fimm árum án þess að vera með ferðatryggingu samkvæmt netkönnun síðunnar sem hátt í sjö hundruð svör fengust í.

Þetta er hátt hlutfall ótryggðra því eins og áður hefur verið greint frá leiddi bresk könnun í ljós að fimmti hver Breti fer til útlanda án trygginga. Treysta margir þeirra á Evrópska sjúkratryggingakortið í staðinn. Niðurstaðan var stjórnvöldum þar í landi áhyggjuefni.

Veitir ekki rétt til heimflutnings

Evrópska sjúkratryggingakortið veitir aðgang að hinu opinbera heilbrigðiskerfi EES-landanna og fær ferðamaðurinn aðstoð samkvæmt reglum dvalarlandsins. Kortið veitir hins ekki rétt til heimflutnings til Íslands og bætir ekki kostnað sem verður til vegna breytinga á ferðaáætlun samkvæmt því sem kemur fram á vef Sjúkratrygginga Íslands sem gefur út kortið. Það er því nauðsynlegt fyrir ferðamenn að hafa sérstakar tryggingar ætli þeir að fá tjónið bætt umfram það sem kortið dekkar.

Gefa út bráðabirgðaskirteini

Samkvæmt upplýsingum Túrista hjá Sjúkratryggingum Íslands getur fólk fengið bráðabirgðaskirteini eftir að það hefur veikst í útlöndum. Þó er mælst til að fólk hafi kortið með sér og skoði líka tryggingar sínar hjá tryggingafélugum áður en lagt er af stað. Tekið er við beiðnum um bráðabirgðaskirteini á símatíma Sjúkratrygginga á virkum dögum á milli tíu og hálf fjögur.

TENGDAR GREINAR: Fimmti hver ferðast ótryggður
NÝJAR GREINAR: Fimm bestu borgaranir í New York

Mynd: Kenjonbro/Creative Commons