Ódýr gluggalaus hótelherbergi í London

Nýtt lággjaldarhótel opnar í bresku höfuðborginni í byrjun næsta árs.

Á hótelum Tune hotels borga gestirnir aukalega fyrir dagleg þrif, notkun á hárþurrkum og aðgang að sjónvarpi og interneti. Það er líka stefna fyrirtækisins að veita aðeins einnar stjörnu þjónustu en bjóða uppá fimm stjörnu rúm.

Fyrsti evrópski gististaður þessarar malasísku hótelkeðju opnaði í London í fyrra. Viðtökur ferðamanna hafa verið það góðar að í janúar opnar nýtt útibú keðjunnar þar í borg. Stefnan er sett á fimmtán hótel á Lundúnarsvæðinu á næstu árum.

Gluggalausu herbergin ódýrust

Það eru 183 herbergi á nýja hótelinu og þar af eru 63 án glugga. Eins og kannski gefur að skilja þarf að borga minnst fyrir þau, eða frá 35 pundum (um 6500 krónur). Samkvæmt athugun Túrista er þó líklegra en ekki að þeir sem ætla sér að dvelja í London um helgi verði að borga að lágmarki 50 pund fyrir nóttina. Það er þó nokkuð vel sloppið þegar haft er í huga að hótelið er splunkunýtt. En auðvitað þarf að borga aukalega fyrir suma þjónustu á Tune hotels sem þykir sjálfsögð annars staðar.

Sjá meira á heimasíðu Tune hotels.

NÝJAR GREINAR: Stærsta Lególandið – Nú lenda allir á sama stað í Berlín
TILBOÐ: Kaupmannahöfn: Hotel Sct Thomas – 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista

Mynd: Tune hotels