Hrekkjavaka í Tívolí

Danir hafa líka tekið upp bandaríska siði, alla vega í Tívolí í Kaupmannahöfn.

Vinsælasti skemmtigarður Dana og eitt helsta aðdráttarafl fyrir ferðamenn í höfuðborginni opnar á nýjan leik á morgun, föstudaginn fjórtánda, í tilefni hrekkjavökunnar. Garðurinn hefur verið lokaður síðan í september en verður opin næstu tíu daga.

Graskerjum í hinum ýmsu stærðarflokkum hefur verið komið fyrir um allan garð og nornir eiga að sjá um að skjóta gestunum skelk í bringu. Allt samkvæmt amerískri forskrift.

Frændur okkar hafa þó ekki misst tengslin við nágrannaþjóðirnar og mun hin sænska Lína Langsokkur troða upp í skemmtigarðinum næstu daga.

Það kostar 95 danskar (um 2000 íslenskar) inn í Tívolí fyrir átta ára og eldri. Það opnar klukkan tíu á morgnana og er opið langt fram á kvöld.

NÝJAR GREINAR: Hverjir eiga erindi á Hróarskelduhátíðina?
TENGDAR GREINAR: Ókeypis fyrir börn í Tívolí

Mynd: Tivoli.dk