Lokka túrista með fríum flugmiðum

Japanir ætla að blása lífi í ferðamannageirann.

Botninn datt úr ferðaþjónustunni í Japan í kjölfar nátturuhamfaranna í mars og kjarnorkuslyssins í Fukushima. Ferðamálaráð landsins ætlar því að grípa til óvenju örlátra aðgerða til að snúa þessari þróun við og bjóða tíu þúsund túristum að fljúga þangað frítt á næsta ári. Þeir sem hreppa hnossið verða þó sjálfir að borga gistingu og uppihald.

Á heimasíðu ferðamálaráðsins verður fljótlega hægt að fylla út umsókn þar áhugasamir um miðana verða meðal annars að tilgreina til hvaða landshluta þeir ætla að ferðast á meðan dvöl þeirra í Japan stendur. Verður að teljast líklegt að þeir sem segjast ætla að fara um Tohuku hérað, í norðurhlutanum, séu líklegri til að fá miða enda er hið margumrædda Fukushima kjarnorkuver þar að finna og ferðamenn hafa því haldið sig fjarri svæðinu frá því í vor.

Túristum í Japan fækkaði um nærri helming fyrstu mánuðina eftir hamfarirnar en í sumar voru um þriðjungi færri túristar í landinu en á sama tíma í fyrra samkvæmt frétt Politiken.

NÝJAR GREINAR: Skoðum skó betur en aðrir
TENGDAR GREINAR: Fáir ferðamenn í Japan

Mynd: Ferðamálaráð Japan