Skoðum skó betur en aðrir

Sá evrópski flugvöllur er vandfundinn þar sem leitað er jafn ítarlega í skóm farþega og gert er í Leifsstöð.

Við öryggisleitina á Keflavíkurflugvelli þurfa allir farþegar að fara úr skónum. Öfugt við það sem gengur og gerist á flugvöllum frændþjóðanna eins og Túristi greindi frá í lok sumars. Svo virðist sem þessar miklu öryggisráðstafanir hér á landi séu einstakar í Evrópu. Því samkvæmt þeim upplýsingum sem Túristi hefur aflað sér hjá þeim þrettán flugvöllum sem flogið er til frá Keflavík í vetur er hvergi leitað í skóm allra farþega. Víða er eftirlitið handahófskennt og farþegar í háum hælum eða stígvélum beðnir um að fara úr skónum en aðeins hér á landi er eitt látið yfir alla ganga.

Hliðin píptu í tíma og ótíma

Það eru forsvarsmenn Isavia, rekstraraðila Keflavíkurflugvallar, sem ákveða hvaða reglur gilda þar varðandi skoðun á skóm. Ástæðan fyrir þessu stranga eftirliti er meðal annars sú, „að menn voru orðnir langþreyttir á þeim töfum sem orsökuðust af því að hliðin virtust pípa í tíma og ótíma. Jafnvel þótt ekki væri að finna neina aðra skýringu en þá að viðkomandi væri í skóm með málmfjöður/plötu í botninum eða reimakósa úr málmi“, eins og það er orðað í svari Innanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Túrista um skoðun stjórnvalda á því hvort reglurnar ættu að vera harðari hér.

Í svarinu segir líka, „…er það mat ráðuneytisins að sú leið sem valin hefur verið við skoðun á skófatnaði sé á engan hátt íþyngjandi fyrir flugfarþega og stuðli þvert á móti að því að auka öryggi í flugi og flýta fyrir afgreiðslu við flugvernd…“. Túristi telur víst að það sé líka markmið yfirvalda í hinum Evrópulöndunum að tryggja öruggar flugsamgöngur þó ekki hafi verið gengið jafn langt og hér á landi. Þetta íslenska eftirlit veldur líklega hluta farþega óþægindum, til dæmis gamalmennum og þeim sem ferðast með ungabörn. Nýleg lesendakönnun Túrista leiddi í ljós að þrír af hverjum fjórum telja ekki réttlætanlegt að reglur hér séu strangari en í nágrannalöndunum.

NÝJAR GREINAR: 10 bestu evrópsku borgirnar fyrir sælkera – Fjallakofi Hitlers vinsæll hjá ferðamönnum
TILBOÐ: Kaupmannahöfn: Hotel Sct Thomas – 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista

Mynd: Túristi