Það sem pirrar flugfreyjurnar mest

Þau atriði sem fara helst í taugarnar á flugáhöfninni.

Hér eru þau fjögur atriði sem fara mest í taugarnar á þeim sem þjóna í farþegarými flugvéla samkvæmt könnun ferðasíðunnar Frommers.

1. Að veita kynningu á öryggisatriðum ekki athygli

Sjaldan er góð vísa of oft kveðin hugsa kannski margar flugfreyjur þegar þær hefja enn eina kynninguna á nokkrum sígildum öryggisatriðum. Því miður eru margir farþegar ekki á sama máli og taka því upp bók eða spjalla við sessunautin á meðan kynningunni stendur. Þetta finnst mörgum flugfreyjum dónalegt og bera vott um virðingarleysi fyrir störfum þeirra samkvæmt könnuninni.

2. Að taka ekki af sér heyrnatólin

Sá sem er með heyrnatól á höfðinu heyrir oftast illa það sem aðrir segja við hann. Þetta á líka við um í flugvél og því fara farþegar sem taka ekki af sér tólin rétt á meðan þeim er þjónað í taugarnar á mörgum áhafnarmeðlimum.

3. Að haga sér ruddalega

Þeir sem ekki segja takk þegar þeim er réttur koddi eða drykkur eru ekki hátt skrifaðir hjá áhöfninni. Það þykir heldur ekki fínt að sitja og klippa á sér neglurnar eða vera með skóna upp í sætinu. Þeir sem standa langdvölum í ganginum og eru þannig fyrir flugfreyjunum og vögnunum þeirra vekja sjaldnast mikla lukku.

4. Þeir sem hlusta ekki á leiðbeiningar

Á meðan á flugferðinni stendur þarf áhöfnin stundum að koma skilaboðum til farþeganna. Oft virðast þessar ábendingar fara inn um annað eyrað og út um hitt. Því spyr fólk reglulega um atriði sem búið er að útskýra í hátalarakerfinu, flugfreyjunum til mikillar mæðu.

NÝJAR GREINAR: Fimm bestu borgaranir í New York
TENGDAR GREINAR: Lofa fallegri flugfreyjum

Mynd: zen/Creative Commons