Það hefur sennilega sjaldan eða aldrei verið ódýrara að gera sér ferð á Ólympíuleika.

Ólympíusirkusinn treður aðeins upp á fjögurra ára fresti og heimsóknir hans til nágrannalandanna eru ekki tíðar. Á næsta ári gefst íþróttaáhugafólki hér á landi þó gott færi á að vera viðstatt þennan stórviðburð án þess að þurfa að kaupa sér flugmiða til annarra heimsálfa. Því leikarnir verða haldnir í London dagana 27.júlí til 12. ágúst.
Samkvæmt athugun Túrista kostar farið með Iceland Express til London og tilbaka, á meðan leikunum stendur, 37.700 krónur en 39.270 með Icelandair. Fjölmargar dagsetningar eru í boði hjá báðum aðilum á þessu verði þá sautján daga í júlí og ágúst sem um ræðir. Easy Jet flýgur nokkrum héðan til Lundúna á tímabilinu og þar eru verðin misjöfn eða frá 16.883 til 23.890 krónur. Farþegar félagsins sem innrita farangur þurfa svo að greiða aukalega 5415 krónur.
Miðar á leikana
Forsölu á miðum á Ólympíuleikana er að mestu lokið en samkvæmt frétt BBC er talið að skipuleggjendur þeirra muni bjóða aukalega hátt í tvær milljónir miða á næsta ári. Langstærsti hluti miðanna kostar á bilinu 20 til 100 pund. Miðasala á knattspyrnukeppni karla og kvenna hefst þann 29. nóvember þannig að þeir sem eru áhugasamir um þá grein ættu að kynna sér dagskrána því leikirnir fara fram á fótboltavöllum um allt Bretland og því ekki víst að flug til London sé besti kosturinn.
Í leitarvélinni hér að neðan er svo hægt að skoða verð á gistingu í London dagana 27. júlí til 12. ágúst.
Næstu Ólympíuleikar fara fram í Ríó í Brasilíu árið 2016 en vetrarleikarnir verða haldnir í millitíðinni Sochi í Rússlandi árið 2014.
NÝJAR GREINAR: Bestu bresku borgirnar að mati heimamanna
Mynd: ODA