Ferðaminningar Mugisons

Mugison tekur aldrei með sér aukaföt í ferðalagið heldur þrífur af sér á hótelinu á kvöldin. Hann segir hér frá ferðalögum sínum út fyrir landsteinana.

Fyrsta ferðalagið til útlanda:
Ég flutti til Grænhöfðaeyja þegar ég var 6 ára. Þá flugum við í gegnum Amsterdam. Man að pabbi keypti stærsta sjónvarp sem ég hafði á ævinni séð á flugvellinum.

Best heppnaða utanlandsferðin:
Einhverntímann sumarið 2005 fórum við Rúna með nokkrum vinum til Hróarskeldu – ég var að spila þar. Við vorum nokkrir vinir með nýfædd börnin og allir í stuði. Alveg ógleymanleg ferð.

Verst heppnaða utanlandsferðin:
Hef bara ekki lent í henni ennþá.

Tek alltaf með í fríið:
Ég fer aldrei í frí. En ég tek alltaf gítarinn með, tannbusta og nærföt til skiptanna. En aldrei aukaföt því ég þríf af mér á hverju kvöldi á hótelum.

Vandræðalegasta uppákoman í útlöndum:
þegar ég kúkaði á mig upp á sviði fyrir framan tæplega 500 manns í Brussel fyrir nokkrum árum.

Besti maturinn sem ég hef smakkað á ferðalagi:
Kræklingaréttur sem ég fékk í forrétt í Japan á undan æðislegum hráum kjúklingi. Mmmmm.

Uppáhalds staðurinn í útlöndum:
Færeyjar og Pólland standa algerlega upp úr.

Draumafríið:
Fara hring í kringum Ísland á 3 mánuðum í húsbíl með allt liðið.