Ferðaminningar Ingunnar Snædal

Úlfaldareið um eyðimerkur Marakkó reyndi mikið á rass- og lærvöðva Ingunnar Snædal ljóðskálds af Jökuldal. Hana dreymir um ferðalag til Kanada til að fylgjast með bæjarferðum ísbjarna. Fimmta ljóðabók Ingunnar, Það sem ég hefði átt að segja næst – þráhyggjusögur, er nýkomin út hjá Bjarti.

Fyrsta ferðalagið til útlanda:

Ferð til Írlands með góðri vinkonu og dóttur hennar í kringum 1990. Ég var með Írland á heilanum frá barnæsku og leið alveg eins og ég væri komin heim. Eftir það trúi ég á fyrri líf og allt mögulegt þegar sá gállinn er á mér.

Best heppnaða utanlandsferðin:

Engin reynsla hefur haft jafn djúpstæð áhrif á mig og bakpokaferðalagið um Indland og Nepal sem ég fór í með manninum mínum fyrrverandi 1997.

Verst heppnaða utanlandsferðin:

Ef litið er til þess að í Indlandsferðinni fékk umræddur fyrrverandi maður salmonellusýkingu sem hann er enn að glíma við, hlýtur nefnd ferð líka að vera sú verst heppnaða.

Vandræðalegasta uppákoman:

Þriggja daga úlfaldareið inn í eyðimerkur Marokkó var tvímælalaust ekki eins spennandi og hún hljómar og hreint helvíti fyrir rass- og lærvöðva. Við fyrrverandi konan mín vorum á þessu ferðalagi með dóttur okkar og foreldrum mínum, úlfaldaferðin var mín hugmynd, ég hlýt að hafa verið hálfbiluð að draga fullorðna foreldra mína með í þetta. Eina nóttina fékk dóttir mín ælupest undir stjörnubjörtum febrúarhimni eyðimerkurinnar og ældi linnulaust niðureftir hliðum úlfaldans síns á víxl daginn eftir.

Tek alltaf með í fríið:

Plástur, spilastokk og góðar bækur.

Besti maturinn sem ég hef smakkað á ferðalagi:

Fylltar ólífur og reyktur ostur á laugardagsmarkaðnum í Galway á Írlandi. Og McDonough´s franskar, sem mig dreymir ennþá stundum um, lykt og allt.

Uppáhalds staðurinn í útlöndum:

Verð að segja Írland. Eða ólífuhéruð Andalúsíu. Eða West Village í New York. Gulufjöll í Kína voru draumi líkust. Æi, má ég ekki heldur segja allir staðirnir sem ég á eftir að fara til?

Draumafríið:

Akkúrat núna langar mig til Manitoba í Kanada, í einhvern svona lumberjack fíling og fá að fylgjast með bæjarferðum ísbjarna.