Ferðum fjölgar um 1 prósent með tilkomu Easy Jet

Fyrirtækið verður sjöunda umsvifamesta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli í brottförum talið.

Það voru átta erlend flugfélög, ásamt Icelandair og Iceland Express, sem héldu uppi millilandaflugi héðan síðastliðið sumar. Útlit er fyrir að þau muni öll snúa tilbaka á næsta ári og fjöldi ferða verði svipaður og áður. Í gær bættist hið breska Easy jet við hópinn og ætlar félagið að fljúga hingað þrisvar sinnum í viku frá London í vor og sumar en ekki hefur verið tekin ákvörðun um vetrarflug félagsins.

Miðað við þennan fjölda ferða þá fjölgar brottförum farþegaþota frá Keflavíkurflugvelli um rúmlega eitt prósent, yfir sumarmánuðina, með tilkomu Easy jet samkvæmt útreikningum Túrista sem byggðir eru á upplýsingum um brottfarir á heimasíðu flugvallarins. Þegar aðeins er litið á flugleiðina Keflavík til London þá eykst framboðið um nærri 12 prósent þegar Easy jet hefur flug. Eða úr 26 ferðum í 29 verði ferðir Icelandair og Iceland Express jafn margar á næsta ári og þær voru síðastliðið sumar.

Umsvifamestu flugfélögin í Keflavík

Með þremur flugferðum í viku þá verður umfang starfsemi Easy Jet hér á landi jafn mikið og þýska flugfélagsins German Wings sem flýgur hingað þrisvar í viku. Þessi tvö félög deila því sjöunda sætinu yfir umsvifamestu flugfélögin á Keflavíkurflugvelli eins og sjá má í listanum hér að neðan:

Nr. Félag Ca.fjöldi brottfara á viku
1. Icelandair 185
2. Iceland Express 70
3. Airberlin 10
4-5. Delta og SAS 5
6. Lufthansa 4
7 – 8. Easy Jet og German Wings 3
9. til 11. Air Greenland, Niki og Transavia 2

 

 

 

 

 

 

Ódýrari fargjöld

Kynningarverð Easy Jet á flugsætum til Lundúna er töluvert lægra en það sem Iceland Express og Icelandair bjóða um þessar mundir. Því er útlit fyrir að með tilkomu félagsins verði ódýrara að fljúga til Bretlands á næsta ári. Þeir sem ætla að bóka hjá breska félaginu ættu þó að hafa í huga að flug þess frá London til Keflavíkur fer á loft um klukkan sjö á morgnana. Farþegar þurfa því að koma sér út á flugvöllinn í Luton um miðja nótt.

TILBOÐ: Hótel í Kaupmannahöfn: Tryggðu þér lægsta verðið og frían morgunmat
TENGDAR GREINAR: Íslandsflug Airberlin í föstum skorðumSýna vetrarflugi til Íslands ekki áhuga

Mynd: Túristi