Hóta hótelum slæmri umsögn

Ósvífnir ferðamenn gera hóteleigendum lífið leitt.

Á heimasíðunni Tripadvisor er að finna hátt í fimmtíu milljón umsagnir túrista um hótel og ýmislegt annað tengt ferðalögum. Vinsældir síðunnar eru svo miklar að gististaðir sem fá slæma dóma geta orðið af miklum viðskiptum. Það reyna óheiðarlegir ferðalangar að færa sér í nyt og krefjast þeir afslátta eða betri herbergja í skiptum fyrir lofsöng á Tripadvisor. Ef hótelstjórarnir láta ekki undan þá birtir fólkið oft neikvæðar umsagnir um gististaðina sem eiga ekki við rök að styðjast.

Þessar hótanir gestanna fara skiljanlega í taugarnar á eigendum hótelanna og hafa margir þeirra beðið Tripadvisor um að fjarlægja neikvæða dóma samkvæmt frétt The Times. Talsmenn ferðasíðunnar segja þessa framkomu fólks stríða gegn reglum og jaðra við að vera lögbrot.

Það eru þó ekki aðeins óheiðarlegir gestir sem reyna að misnota Tripadvisor því bresku neytendasamtökin rannsaka nú hvort hótelstjórar þar í landi hafi gefið afslætti í skiptum fyrir jákvæðar umsagnir á netsíðunni.

NÝJAR GREINAR: Við höfum úr mestu að moða í ÞýskalandiEkki svo einfalt með Easy JetBestu borgaranir í New York

Skjámynd af Tripadvisor.com