Norwegian hefur áætlunarflug til Íslands

Íslandsflug norska lággjaldarflugfélagsins hefst í júní. Fjórtán félög munu fljúga héðan reglulega í sumar.

Samkeppnin á flugleiðinni milli Keflavíkur og Óslóar mun aukast í sumar því lággjaldarflugfélagið Norwegian ætlar að fljúga þessa leið frá byrjun júnímánaðar. Þetta staðfestir Anne-Sissel Skånvik talskona félagsins við Túrista. Hún segir að boðið verði uppá þrjár ferðir í viku og til að byrja með aðeins um sumarið en markmiðið sé að fljúga allt árið. Icelandair og SAS fljúga héðan til höfuðborgar Noregs allt árið og Iceland Express á sumrin.

Ódýrustu flugmiðarnir hjá Norwegian, aðra leið, verða seldir á 399 norskar krónur sem jafngildir rúmum 8100 íslenskum. Við það bætast svo 60 norskar, um 1200 kr., fyrir hverja tösku sem innrituð er.

Norwegian er næst stærsta flugfélagið í Skandinavíu og þriðja stærsta lággjaldafélagið í Evrópu.

Fjórtán flugfélög á Keflavíkurflugvelli

Á fimmtudaginn birti Isavia lista yfir þau átján flugfélög sem sótt hafa um afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli næsta sumar. Meðal nýliða á þeim lista er spænska lággjaldaflugfélagið Vueling en samkvæmt upplýsingum frá Isavia munu Spánverjarnir aðeins sinna leiguflugi hingað. Það sama gildir líklega um þrjú önnur fyrirtæki á listanum. Það er því útlit fyrir að fjórtán félög muni halda úti áætlunarflugi frá Keflavík næsta sumar en í mjög mismiklum mæli.

TENGDAR GREINAR: Ferðum fjölgar um eitt prósent með tilkomu Easy JetÍslandsflug Airberlin í föstum skorðumSýna vetrarflugi til Íslands ekki áhuga
NÝJAR GREINAR: Ferðaminningar Mugisons

Mynd: Péter Andrasovszky/Norwegian.com