Samkeppnin eykst á tíu flugleiðum

Wow Air ætlar að fljúga til tólf evrópskra borga. Tvær þeirra voru ekki á listanum yfir þá áfangastaði sem flogið verður beint til héðan næsta sumar.

Af þeim tólf borgum sem eru hluti af leiðarkerfi Wow Air er Lyon í Frakklandi sú eina sem ekki var hægt að fljúga beint til frá Keflavík síðastliðið sumar. Wow Air mun leysa Iceland Express af hólmi hvað varðar flug til Kraká því það síðarnefnda ætlar ekki að fljúga til pólsku borgarinnar í sumar líkt og það hefur gert undanfarin ár. Á hinum tíu flugleiðunum mun Wow Air etja kappi við þau félög sem fyrir eru. Flug fyrirtækisins hefst í sumarbyrjun samkvæmt því sem segir í fréttatilkynningu.

Áfangastaðir Wow Air verða: Berlín, Köln og Stuttgart í Þýskalandi, Kaupmannahöfn í Danmörku, London í Bretlandi, Basel og Zurich í Sviss, Varsjá og Kraká í Póllandi, París og Lyon í Frakklandi og Alicante á Spáni. Flogið verður fjórum sinnum í viku til Kaupmannahafnar og þrisvar til London. Ekki kemur fram í tilkynningunni hversu oft verður flogið á hina staðina. Fyrstu tíu sætin á hvern áfangastað verða seld á 9.900 krónur.