Bannað að betla í París

Sarkozy Frakklandsforseti vill ekki sjá sníkjandi fátæklinga við vinsælustu ferðamannastaði höfuðborgarinnar. Alla vega ekki fyrr en seint á næsta ári.

Betlarar eru víst meira áberandi á götum Parísar nú en fyrir nokkrum árum síðan. Sérstaklega við þá staði í borginni sem laða til sín flesta ferðamenn. Efnahagsástandið í landinu er heldur ekki gott og margir því endað á götunni síðustu ár.

Frakklandsforseti hefur verið hvattur til að ráðast í aðgerðir til að bæta úr húsnæðisvanda þeirra allra fátækustu en hann hefur ekki orðið við því. Hins vegar hefur hann beitt sér fyrir setningu nýrra reglna sem banna allt betl við Champs Elysées breiðgötuna, vöruhúsin Printemps og Galeries Lafayette, Louvre safnið og Tuileries garðana samkvæmt frétt The Guardian. Upphaflega átti bannið að gilda til áramóta en það hefur nú verið framlengt fram á sumarið.

Borgarstjóri Parísar er ekki stuðningsmaður þessara aðgerða forsetans og segir þær vera fjölmiðlastönt.

NÝJAR GREINAR: Ferðaminningar Steinars Braga
TENGDAR GREINAR: Hótel í París í þremur verðflokkum

Mynd: Paris info