Farþegar Iceland Express eiga rétt á fari með öðrum félögum

Þeir sem áttu bókað far til New York með fyrirtækinu eiga rétt á nýjum farmiðum með öðrum flugfélögum. Félagið segist ætla að semja við hvern og einn.

Í byrjun mánaðarins ákváðu forsvarsmenn Iceland Express að gera hlé á flugi fyrirtækisins til New York fram til vorsins 2013. Skömmu áður hafði fluginu vera aflýst til næsta vors. Í kjölfarið vöknuðu spurningar um réttindi farþeganna en fjöldi fólks hér á landi og í útlöndum hafði bókað far með félaginu vestur um haf í vetur. Talsmaður Iceland Express sagði að félagið byðist til að endurgreiða farmiðana og samið yrði við hvern og einn.

Í tilkynningu frá Flugmálastjórn 21. nóvember kemur fram að farþegar sem eiga miða í aflýst flug eigi rétt á endurgreiðslu eða öðru flugi til lokaáfangastaðar við fyrsta tækifæri eða seinna ef það hentar farþega betur. Þar kemur jafnframt fram að flugfélög sem aflýsa flugi með meira en tveggja vikna fyrirvara eru ekki skaðabótaskyld. Samkvæmt þessu á Iceland Express að bjóða fólki far með þeim flugfélögum sem fljúga héðan til New York þegar farþegarnir óska. Aðspurður um hvort þetta væri ekki líka skilningur Iceland Express á reglunum sagði Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi félagins að fyrirtækið fari eftir þeim lögum og reglum sem gilda um réttindi farþega. Hann segir í svari til Túrista að það sé mál félagsins og farþegans hvernig Iceland Express uppfyllir þau skilyrði.

Hörð gagnrýni í Danmörku

Talið er að hátt í þúsund Danir hafi átt bókað far með Iceland Express til New York í vetur samkvæmt frétt Politiken. Blaðið fjallaði um málefni íslenska félagsins í byrjun desember og þar var haft eftir framkvæmdastjóra Sambands danskra ferðaskrifstofa og talsmanni neytendaráðsins þar í landi að farþegarnir ættu klárlega rétt á nýjum miðum en ekki bara endurgreiðslu. Þeir sögðu þó málið flókið þar sem Iceland Express væri ekki flugfélag og Astraeus, sem séð hefur um flug fyrirtækisins, væri farið á hausinn.

Í dag er aftur fjallað um þessi mál í Politiken og Iceland Express harðlega gagnrýnt fyrir að veita farþegum sínum litlar upplýsingar, svara erindum frá þeim seint og jafnvel að reyna að sleppa of ódýrt frá skuldbindingum sínum með því aðeins að bjóða endurgreiðslu. Á heimasíðu Politiken í morgun er þó eftir Heimi Má að þeir farþegar sem hafa beðið um nýja miða með öðrum félögum hafi fengið þá ósk uppfyllta.

Það sama ætti því að gilda fyrir þá sem áttu bókað flug frá Keflavík til New York með Iceland Express á næstu mánuðum. Þeir farþegar geta því óskað eftir því að fá miða með Icelandair til New York í vetur eða jafnvel Delta þegar það félag hefur flug hingað að nýju í byrjun júní.

TENGDAR GREINAR: Áttu rétt á bótum vegna seinkunar á flugi?
NÝJAR GREINAR:
Tilboð á gistingu í Kaupmannahöfn

Mynd: Deanster/Creative Commons