Samfélagsmiðlar

Ferðaminningar Bryndísar Björgvinsdóttur

Krókódílar sem borðuðu pasta voru heimalingar á gistihúsi Bryndísar Björgvinsdóttur rithöfundar við bakka Amazon. Hún hefur ferðast víða en getur ekki hugsað sér að snúa aftur til Indlands eftir óþægilega uppákomu á veitingahúsi þar í landi. Bók Bryndísar, Flugan sem stöðvaði stríðið, fékk Íslensku barnabókaverðlaunin 2011.

Fyrsta ferðalagið til útlanda:

Tveggja ára fór ég til Lúx (Lúxemburg) með mömmu minni. Einu minningarnar úr ferðalaginu tengjast dýrum: Það voru froskar í gosbrunnum, páfagaukar á svölum og hestar á túnum, einhver talaði um leðurblökur. Við mamma vorum að heimsækja ættingja en ég man hinsvegar ekkert eftir þeim frá þessu ferðalagi.

Best heppnaða utanlandsferðin:

Það hlýtur að vera vikuferðin til London sem ég fór í fyrra og endaði á að fljúga ekki til baka heldur dvelja í London í tæpt ár. Það að lengja ferðina svona rækilega – aðeins með handfarangur og þvert ofan á öll plön – hlýtur að þýða að mér hafi liðið vel. En til að nefna fjarlægari staði þá held ég mikið upp á ferð sem ég fór til Bólivíu, til La Paz og Rurrenabaque í Amazon. Í Amazon sigldum við um á kanó og honum stýrði innfæddur maður í lendarskýlu sem gat talað við dýrin og þá sérstaklega krókódíla. Við gistum í húsi úti í ánni og þar á „bæjarhlaðinu“ biðu krókódílar eins og heimalingar á íslenskum sveitabæ eftir því að maður kæmi út og gæfi þeim eitthvað að bíta og brenna. Sá innfæddi sagði að þeir væru vitlausir í pasta og þá sérstaklega tagliatelle.

Verst heppnaða utanlandsferðin:

Rúta frá Eistlandi til St. Pétusborgar um nótt. Enginn talaði ensku í rútunni og ég missti af stoppistöðinni minni því að ég efaðist stórlega um að þetta væri rétta stöðin. Byggingarnar í kring voru svo hrörlegar og ljótar að ég hreinlega trúði því ekki að ég væri komin til St. Pétursborgar. Lenti í útjaðri borgarinnar og leigubílstjóri (sem talaði ekki ensku heldur) keyrði mig til baka fyrir himinháa upphæð. Kom í ljós að rússneski strákurinn sem ég átti að fá að gista hjá gat ekki hýst mig. Gjörsamlega óþolandi Hollendingur endaði á að leyfa mér að gista í lítilli íbúð sem hann var að leigja og gaf ekkert eftir í leiðindum allan tímann. Þetta var sólarhringsferð til borgarinnar sem mér hafði svo lengi verið hugleikin. Ég gat ekki beðið allan tímann eftir að komast aftur til baka til Eistlands. Á leiðinni frá landinu ákváðu þau í vegabréfaeftirlitinu hinsvegar að vegabréfið mitt væri dularfullt (það var allt morkið eftir að hafa blotnað á ferðlalaginu þarna í Amazon) og að framlengja dvöl mína í fyrirheitna landinu í nokkra klukkutíma. Á meðan sat ég á bekk við landamæraeftirlitsstöðina og horfði á fíkniefnahunda að störfum.

Tek alltaf með í fríið:

Töskur.

Vandræðalegasta uppákoman í útlöndum:

Ég lenti í því á ferðalagi um Rajasthan-hérað á Indlandi, borg sem heitir Jaisalmer, að panta mér mat á veitingastað sem mér fannst erfitt að borða af því að hann var sterkur og fullur af mjólkurafurðum en ég þoli ekki sterkan mat og er með vægt mjólkuróþol í þokkabót. Konan sem rak veitingastaðinn vildi hinsvegar ekki leyfa mér að fara án þess að klára af diskinum. Hún tók upp á því að mata mig með tilfþirfum fyrir framan alla á veitingastaðnum. Ég neitaði í fyrstu en hún var svo ákveðin, og öllum gestunum fannst þetta svo sniðugt (þeir fóru að taka myndir), að það hefði verið enn vandræðalegra hefði ég mótmælt meira. Ég borðaði því matinn sem hún skóflaði ofan í mig og mér hefur sjaldan liðið jafn illa. Mér varð rosalega illt í maganum í kjölfarið og fannst eins og mér hefði verið misþyrmt, öðru fólki til gleði og ánægju.

Besta maturinn sem ég hef smakkað á ferðalagi:

Djúpsteikt sushi sem ég fékk á litlum og skrýtnum veitingastað í Berkeley Kaliforníu, japönskum að sjálfsögðu. Það var svo gott að allt annað í heiminum hætti að skipta mig máli um stundarsakir. Ég táraðist. Bragðið af Guði.

Uppáhalds staðurinn í útlöndum:

Atitlan vatnið í Gvatemala. Þar kemur allt heim og saman. Eins og Guð hafi hnýtt alla sína hnúta saman í sköpun heimsins akkúrat þar.

Draumafríið:

Ég er spennt fyrir öllum heimsins stöðum nema Indlandi (eins og er, er enn illt í maganum). Mest þá kannski Madagaskar, Kína, Tælandi og svo er ferðalag um Kyrrahafseyjurnar eitthvað sem mig dreymir um að upplifa en efast þó stórlega um að gerist nokkurn tímann. Annars hugsa ég nánast dag hvern um að ferðast aftur um Suður-Ameríku. Það er besta heimsálfan til að heimsækja.

TENGDAR GREINAR: Ferðaminningar Steinars Braga – Ferðaminningar Ingunnar Snædal
NÝJAR GREINAR: Stundvísitölur: Mörgum flugum seinkaði en tafirnar litlar

Nýtt efni

Tekjur Icelandair af farþegaflugi námu rúmlega 27 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins og hafa þeir aldrei verið hærri á þessum tíma árs. Sætaframboðið hefur heldur aldrei verið meira en það jókst það um 21 prósent á milli ára og var farþegahópurinn 14 prósent fjölmennari núna en fyrstu þrjá mánuðina í fyrra. Þá stóðu farþegar …

Það seldust 183 þúsund Volvo bílar á fyrsta fjórðungi ársins sem var aukning um 12 prósent frá sama tíma í fyrra. Engu að síður dróst veltan saman um 2 prósent og rekstrarafkoman (Ebit) nam 4,7 milljörðum sænskra króna eða 61 milljarði kr. Það er töluvert undir spá greinenda sem höfðu að jafnaði gert ráð rekstrarhagnaði …

„Afkoma fyrsta ársfjórðungs var í takt við væntingar okkar en rekstrarniðurstaðan í janúarmánuði litaðist af áhrifum alþjóðlegrar umfjöllunar um eldgos á Reykjanesi. Við nýttum þann mikla sveigjanleika sem félagið býr yfir til að laga sætaframboð að markaðsaðstæðum og jukum fjölda tengifarþega um 48 prósent með aukinni áherslu á þann markað þar sem markaðurinn til Íslands …

Áður en skemmtiferðaskipin taka að fylla götur Ísafjarðar af forvitnum ferðalöngum eru tvær helgar að vori sem fylla bæinn af heldur ólíkum hópum fólks. Sú fyrri er páskahelgin þegar tónlistarfólk og áhangendur þeirra þyrpast í bæinn til að taka þátt í rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, og sú síðari er Fossavatnshelgin, sem fór fram …

Tekjur Finnair drógust saman um tvö prósent á fyrsta fjórðungi ársins þrátt fyrir að finnska flugfélagið hafi aukið framboðið. Skýringin á samdrættinum liggur í verkföllum, verri sætanýtingu og lægri tekjum af fraktflutningum samkvæmt uppgjöri félagsins sem birt var í morgun. Rekstrarkostnaður Finnair á fyrsta ársfjórðungi var á pari við sama tímabil í fyrra og tapaði …

Allt þar til að Boeing Max krísan hófst, í ársbyrjun 2019, framleiddi Boeing fleiri þotur en keppinauturinn, Airbus. Kyrrsetningar og endurteknir framleiðslugallar hafa hins vegar orðið til þess að hægt hefur á framleiðslunni í verksmiðlum Boeing og eftirspurnin minnkað. Í fyrra framleiddi Airbus 735 þotur en Boeing 528 og mun bilið að öllu óbreyttu breikka …

Fataverslunin Húrra Reykjavík opnar í brottfararsal Keflavíkurflugvallar í vor og verður þar boðið upp á úrval af fatnaði og skóm frá vinsælum vörumerkjum fyrir farþega á leið úr landi. „Við erum að stíga stór skref með opnun þessarar nýju og glæsilegu verslunar, sem á sér stað í tilefni af 10 ára afmæli fyrirtækisins. Þetta er …

MYND: ÓJ

„Þetta er ein heitasta gjafavara Íslands, það get ég sagt fullum fetum. Seljum mikið á netinu hjá okkur út um allan heim,“ segir Baldur Ólafsson, markaðsstjóri Bónus, við fyrirspurn FF7 um vinsældir burðarpoka Bónus meðal ferðamanna.  Áberandi er við verslanir Bónus í miðborginni að ferðamenn kaupa þar gjarnan marga burðarpoka úr endurefni efni sem skarta …