Ferðaminningar Steinars Braga

Rithöfundurinn Steinar Bragi Guðmundsson hefur flakkað um framandi slóðir og lætur sig dreyma um að fara í siglingu með skipstjóra á tréfæti. Nýjasta bók Steinars Braga, Hálendið, kom út fyrir jólin og hefur fengið mikið lof gagnrýnenda.

Fyrsta ferðalagið til útlanda:
Til Kaupmannahafnar með foreldrum mínum. Ég man eftir eldum sem brunnu úti í myrkrinu frá samkomum Hell´s Angels og tveimur gengjum sem slógust með vatnsbyssum fyrir framan stúdentagarðinn. Á sunnudögum skreið ég um samkomusal íslenskra stúdenta í leit að gylltum bikurum sem voru greyptir í kork á flöskum og gaf dúkkunni minni, öldruðum sjóræningja.

Best heppnaða utanlandsferðin:
Til Bago, skammt norðan við Yangon í Myanmar. Þar er mikið af nýmáluðum liggjandi búddum, kræklóttum hofum, og fjögur þúsund uppljómaðar mannverur, helmingi fleiri á fimmta stigi uppljómunar og þrefalt fleiri á sjötta. Yangon er líka spennandi, sem útlegging á stefnu stjórnvalda um að láta þjóð sína gossa og höfuðborgina grotna niður. Hershöfðingjar landsins hafa byggt nýtt samfélag til hliðar við hitt þar sem engir fátæklingar eru, engir gamlingjar, engar beljur eða hestvagnar á spánnýjum hraðbrautum, enginn í spánnýjum raðhúsunum eða kringlum nýju höfuðborgarinnar sem ég man ekki hvað heitir. Myanmar er vel spennandi. Algjörlega ómótstæðilegt fyrir þá sem nenna ekki að lesa 1984 e. Orwell heldur lifa hana.

Verst heppnaða utanlandsferðin:
Flug, lest, rúta, sigling, rúta og leigubíll – tuttugu klukkustunda ferðalag til að skjótast á finnlandssænska eyju til að sitja hálftíma spjall á bókmenntafestivali. Fara svo heim sömu leið daginn eftir, án þess að sjá nokkuð, yfirleitt sofandi.

Tek alltaf með í fríið:
Sem minnst.

Vandræðalegasta uppákoman í útlöndum:

Að missa stjórn á skapi sínu við einhvern sem reynist hafa verið að hjálpa. Þurfa að leita til hans aftur. Að stíga á bananahýði og hrasa, grípa um mjöðm ókunnugrar konu um leið og mávur skeit á hausinn á mér.

Besti maturinn sem ég hef smakkað á ferðalagi:
Súpa úr sogæðakerfi einhyrnings í Nepal, með fljótandi svölueggjum og lótusblöðum.

Uppáhalds staðurinn í útlöndum:
Sipadan-eyja, við strendur malæsísku Borneó. Góður staður til köfunar, heilmargar tegundir af kóral, margir litir, páfagaukafiskar í hjörðum, skjaldbökufjölskyldur, hákarlar og kátir smáfiskar. Skammt frá ströndinni brotnar landgrunnið þverhnípt niður á margra kílómetra dýpi. Ef sest er á brúnina og beðið sjást hvalir líða gegnum myrkrið.

Draumafríið:
Ég hef áráttukenndar hugsanir um skíðaferðalag í Ölpunum. Ég kann ekki á skíði en ímynda mér að það sé skemmtilegt að fara niður, niður og niður. Heilu dagana niður. Ég er líka spenntur fyrir skemmtiferðaskipum, þeim sem sigla allan hringinn, hring eftir hring eftir hring. Með buffet, tómum börum og skipstjóra á tréfæti.

TENGDAR GREINAR: Ferðaminningar Ingunnar SnædalFerðaminningar Magnúsar Orra SchramFerðaminningar Guðrúnur Helgadóttur
NÝJAR GREINAR: Ekki svo einfalt með Easy Jet Við höfum úr mestu að moða í Þýskalandi

Mynd: Forlagið