Fleiri Bretar séð Eiffel turninn en Buckingham höll

Nærri helmingur Breta hefur virt fyrir sér þekktasta kennileiti Parísar. Það er mun fleiri en hafa séð heimkynni drottningarinnar í London.

Áhugi íbúa Bretlands á ferðalögum innanlands er nokkuð takmarkaður því 84 prósent þeirra vilja heldur fara í frí til útlanda en flakka um eigið land samkvæmt nýrri könnun. Það þarf því ekki að koma á óvart að aðeins þriðjungur Breta hefur staðið við Buckingham höll í London og fimmtungur hefur aldrei heimsótt einn af allra þekktustu ferðamannastöðunum í landinu, þar á meðal þinghúsið í London, Stonehenge og Blackpool Tower. Það eru íbúar höfuðborgarinnar sem eru latastir við að heimsækja þessi kennileiti þó nokkur þeirra séu nánast í göngufæri við heimili þeirra.

LESTU LÍKA: Segir Karl prins ætla að breyta höllinni í hótel

Hins vegar sýna niðurstöður könnunarinnar, sem dagblaðið Telegraph gerir að umtalsefni, að 45 prósent Breta hefur gert sér ferð að Eiffelturninum í París og fimmtungur hefur séð Frelsisstyttuna í New York. Róm er sú borg sem flesta dreymir um að heimsækja og sólarbærinn Marbella í Andalúsíu er líka vinsæll því 79 prósent þátttakanda í könnuninni væri til í að eyða nokkrum dögum þar.

TENGDAR GREINAR: Eiffelturninn lagfærður
NÝJAR GREINAR: Roksala á Íslandsferðum í Noregi Tilboð á gistingu í Kaupmannahöfn

Mynd: Visit London