Fríhöfnin hér ódýrust

Fríhöfnin á Keflavíkurflugvelli stenst verðsamanburð við sambærilegar verslanir í nágrannalöndunum.

Það er ódýrara að kaupa inn í fríhafnarversluninni í Keflavík en á flugvöllunum í Ósló, Kaupmannahöfn og Stokkhólmi. Alla vega þær sex vörur sem blaðamenn norska blaðsins Aftenposten könnuðu verðlagið á í verslununum á skandinavísku flugstöðvunum í lok nóvember. Túristi tók boltann á lofti og fékk upplýsingar um hvað sömu vörur kosta í Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli. Niðurstaðan er sú að vörukarfan er ódýrust hér á landi og var munurinn 14 prósent á verðinu hér og á Arlanda í Stokkhólmi þar sem karfan var dýrust.

Vörukarfan samanstóð af: 1 lítri Chivas Regal 12 ára vískí, 1 lítri Harvey’s Bristol Cream sérrí, eitt karton af Marlboro Gold-sígarettum, Biotherm svitalyktaeyðir, ein flaska Allure Homme Sports ilmvatn (100ml) og Diors J’Adore ilmvatn (75ml).

Sá sem kaupir þessar vörur á Keflavíkurflugvelli borgar 38.085 krónur fyrir, í Kaupmannahöfn kosta þær 41.054 krónur, á Gardermoen í Ósló 41.489 krónur og 43.414 krónur á Arlanda í Stokkhólmi þegar verðin hafa verið umreiknuð úr norskum í íslenskar krónur.

NÝJAR GREINAR: Tilboð á gistingu í KaupmannahöfnFrítt á netið á Kastrup

Mynd: Fríhöfnin