Nú geturðu sofið í Ikea

Sænski húsgagnaframleiðandinn flytur höfuðstöðvar sínar til Malmö á næstu árum og ætlar að reisa gististað fyrir starfsmenn og ferðafólk í nágrenni við skrifstofurnar.

Fyrsta stopp lestarinnar frá Kaupmannahöfn til Svíþjóðar er við Svågertorp í suðurhluta Malmö. Þar opnaði nýlega risavaxinn Ikea verslun og á næstu árum munu höfuðstöðvar keðjunnar rísa þar ásamt hóteli sem ætlað er starfsmönnum og túristum.

Í dag halda topparnir hjá Ikea til í Helsingborg en staðsetning Malmö þykir henta betur fyrir alþjóðlegt fyrirtæki eins og Ikea. Samkvæmt frétt hins danska Berlingske hefur þarlendur arkítekt fengið það verkefni að teikna hótelið en ekki liggur fyrir hvort innanstokksmunirnir verði eingöngu sóttir í búðina við hliðina á eða ekki.

Hótelið í Malmö verður ekki eini gististaður Ikea veldisins því í Smálöndunum, í suðurhluta Svíþjóðar, stendur enn mótelið sem byggt var við fyrstu verslunina í Älmhult, heimabæ stofnandans Ingvar Kapmrad.

TENGDAR GREINAR: Hótel Ikea í Smálöndunum
NÝJAR GREINAR: Fimmtíu milljónir komu í heimsóknStærsta völundarhús í heimi og landsins bestu kartöflur

Mynd: IKEA hotell/Värdshuset