Kynningar á Íslandsflugi skila árangri

Tvö erlend flugfélög halda í fyrsta skipti uppi áætlunarflugi hingað til lands næsta sumar. Koma þeirra hingað er m.a. afrakstur kynningarstarfs Isavia. Fyrirtækið ætlar að taka í gagnið hvatakerfi til að fjölga flugfélögum hér og flugleiðum enn frekar.

Lággjaldaflugfélögin Easy Jet og Norwegian munu bætast við hóp þeirra fyrirtækja sem fljúga til og frá landinu á næsta ári. Bæði félög hafa verið að velta Íslandi fyrir sér sem áfangastað lengi að sögn Friðþórs Eydals talsmanns Isavia, fyrirtækisins sem rekur Keflavíkurflugvöll. Hann segir að koma þessara tveggja félaga sé m.a. afrakstur vinnu fyrirtækisins við að skapa áhuga hjá erlendum flugfélögum.

Líkt og Túristi greindi frá í vor þá íhugar Isavia að gefa þeim félögum afslætti sem ráðgera að bjóða uppá flug hingað frá nýjum áfangastöðum. Friðþór segir vinnu við þróun hvatakerfis vera í gangi innan fyrirtækisins og markmiðið með því sé að fjölga áfangastöðum og farþegum. Hann segir ekki tímabært að ræða einstaka þætti þess að öðru leiti en því að stefnt er að hvata fyrir bæði ný flugfélög og þau sem fyrir eru með rekstur á Keflavíkurflugvelli.

TENGDAR GREINAR: Easy Jet eykur framboðið um eitt prósentEkki svo einfalt með Easy JetRoksala á Íslandsferðum í Noregi
NÝJAR GREINAR: Ferðaminningar Bryndísar BjörgvinsdótturVið höfum úr mestu að moða í Þýskalandi

Mynd: Túristi