Óstundvísi algengari hér en í nágrannalöndunum

Seinkanir á brottförum voru tíðari í Keflavík en á flugvöllum frændþjóðanna í sumar.

Nærri níu af hverjum tíu flugvélum sem tóku á loft frá Kaupmannahöfn, Ósló og Stokkhólmi í sumar fóru á réttum tíma. Hinsvegar seinkaði brottförum í meira en helmingi tilvika á Keflavíkurflugvelli í júní. Ástandið þar batnaði þegar leið á sumarið og í ágúst fóru 71,6 prósent véla í loftið á auglýstum tíma eða innan fimmtán mínútna. En bið uppá korter eða minna telst ekki seinkun í fluggeiranum.

Á sama tíma stóðust tímasetningar í 93 prósentum tilvika í Ósló og Stokkhólmi eins og sjá má á töflunni hér að neðan sem byggð er á upplýsingum frá viðkomandi flugvöllum.

Hlutfall brottfara á réttum tíma:

Flugvöllur Júní Júlí Ágúst
Kaupmannahafnarflugvöllur 85% 84% 88%
Keflavíkurflugvöllur 44,5% 62,9% 71,6%
Ósló Gardemoen 85,6% 88,6% 93%
Stokkhólmur Arlanda 84,6% 85,9% 92,4%

 

 

 

 

Vandinn liggur ekki hjá flugvellinum

Tíðar seinkanir á Keflavíkurflugvelli í sumar eru ekki einsdæmi því stundvísin var með mjög svipuðum hætti sumarið á undan samkvæmt Friðþóri Eydal talsmanni Isavia. Hann segir að seinkanir á auglýstum brottfarartíma flugrekenda á Keflavíkurflugvelli hafa jafnan ekkert með frammistöðu flugvallarins að gera. Ástæður seinkana sem verða af öðrum ástæðum en óviðráðanlegum veðurskilyrðum eru jafnan að finna hjá flugrekendum, flugafgreiðsluaðilum eða á öðrum flugvöllum. Aðspurður um hver markmið Isavia eru varðandi stundvísi segir Friðþór að Isavia leggji mikla áherslu á að rekstraraðilar haldi áætlun eins og best verður á kosið enda geta seinkanir haft víðtæk áhrif á flugfarþega, stæðisúthlutun við flugstöðina og þjónustuaðila.

Miklar seinkanir hjá Iceland Express

Í sumarbyrjun fór aðeins fimmtungur ferða Iceland Express frá Keflavík á réttum tíma samkvæmt stundvísitölum Túrista. Stundvísi fyrirtækisins batnaði þegar leið á sumarið og það hefur jákvæð áhrif á útkomuna fyrir Keflavíkurflugvöll í samanburði við hina vellina í júlí og ágúst. Það er þó langt í land með að tímasetningar í millilandaflugi héðan á sumrin standist eins vel og í löndunum í kringum okkur.

NÝJAR GREINAR: Við höfum úr mestu að moða í ÞýskalandiSamkeppnin eykst á tíu flugleiðum
TENGDAR GREINAR: Langflestar brottfarir á tíma

Mynd: Túristi