Rúm sextíu prósent fara aldrei á netið í útlöndum

Það eru ekki margir sem skoða netið í símanum sínum á erlendri grundu þó snjallsímar séu útbreiddir meðal landans.

Sögur af himinháum símreikningum fólks, sem notað hefur farsímana sína ótæpilega í útlöndum, hafa væntanlega dregið úr kjarki margra ferðamanna við að nota snjallsímana sína til annars en að hringja og senda sms. Alla vega segjast 62 prósent þeirra sem tóku þátt í lesendakönnun Túrista ekki fara á netið í símanum sínum þegar þeir eru í útlöndum.

Þrettán prósent segjast hins vegar fara nokkrum sinnum á dag á netið, tíu prósent a.m.k. einu sinni á sólarhring og fimmtán prósent fara sjaldan á netið á ferðalagi erlendis. Hátt í fimm hundruð svör fengust í könnuninni.

Það er þó sennilega ekki bara kostnaðurinn sem veldur því að túristar veigri sér við að nota netið í símanum sínum því margir eru sennilega fegnir frelsinu frá fréttum, Facebook og vinnupósti.

Túristi spyr næst: Hvaða árstími finnst þér henta best fyrir stutta borgarferð? Vetur, sumar, vor eða haust? Vinsamlegast svarið hér hægra megin á síðunni.

TENGDAR GREINAR: Lítill hluti farþega kaupir aldrei veitingar um borðFlórens freistar flestra
NÝJAR GREINAR: Stærsta völundarhús heims og landsins bestu kartöflur