Stærsta völundarhús heims og landsins bestu kartöflur

Lítil eyja fyrir ratvísa matgæðinga á ferðalagi um Jótland.

Það er fátítt að fólk villist á ferðalagi um litlar eyjur. Það getur hins vegar auðveldlega gerst á dönsku eyjunni Samsø því þeir sem hætta sér inn í sex hektara birkiskóg nyrst á eyjunni gætu verið í slæmum málum. Þessi skógur er nefnilega stærsta völundarhús í heimi samkvæmt heimsmetabók Guinness.

Þess skal þó getið að allir sem farið hafa í skógarferð á þessum slóðum hafa skilað sér heim. Því vel er passað upp á alla tuttugu þúsund göngugarpana sem láta reyna á ratvísi sína í völundarhúsinu á hverju sumri. Göngutúrinn í gegnum skóginn tekur hátt í klukkutíma og þarf að greiða 55 danskar krónur fyrir aðganginn.

Kartöflumatur

Það eru ekki bara ratleikir sem laða ferðafólk að þessari fallegu eyju úti fyrir ströndum Jótlands. Matarkúltúr eyjaskeggja er nefnilega rómaður um allt ríki Margrétar Þórhildar og þá sérstaklega kartöflurnar. Bændur á Samsø eru líka fyrstir til að taka upp á sumrin og seljast þá bílfarmar af þessum nýju dönskum kartöflum. Þeir sem eru á ferð um eyjuna ættu því að þefa uppi veitingahús sem selja klassíska rétti en láta skyndibitann bíða betri tíma. Samsø kartöflurnar eru líka virkilega góðar kaldar, þá þunnt sneiddar ofan á rúgbrauð með majónesi og graslauk. Réttur sem Danir kalla kartoffelmad.

Ferjur frá Sjálandi og Jótlandi

Almenningssamgöngur eru til fyrirmyndar í Danmörku og ferjusiglingar því tíðar út í Samsø bæði frá austurströnd Jótlands og Sjálandi. Það er því lítið mál að fara þangað í dagsferð eða gista í eina eða tvær nætur.

Jótland liggur vel við höggi hjá íslenskum ferðamönnum á sumrin því þrjú fyrirtæki fljúga beint til Billund flugvallar yfir háannatímann. Iceland Express, Icelandair og Heimsferðir í samstarfi við Primera Air.

Þessi grein er skrifuð í samvinnu við:

 

 

 

TENGDAR GREINAR: Fallegasta þorpið í Danmörku
NÝJAR GREINAR:
Ferðaminningar Bryndísar BjörgvinsdótturVið höfum úr mestu að moða í Þýskalandi

Myndir: Samsø labyrint – Danmark Media Center