Svona minnkar þú líkurnar á að veikjast í flugvél

Líkurnar á að smitast af kvefi aukast þegar við fljúgum. Hér eru nokkur ráð til að forðast bakteríur um borð.

Um hátíðarnar eru farþegarými flugvélanna þéttsetinn og ekki ólíklegt að um borð séu einhverjir sem eru tæpir á heilsu eftir kuldakast síðustu vikna. Samkvæmt frétt á heimasíðu Wall Street Journal eru líkurnar á að við fáum flensu fimmtungi hærri í flugvél.

Það gæti því borgað sig að fylgja nokkrum einföldum ráðum sem læknir blaðsins gefur lesendum þess þó það sé næsta víst að þeir sem það gera muni fara eilítið í taugarnar á sessunautum sínum og jafnvel áhöfninni.

8 leiðir til að draga úr hættunni á að veikjast um borð í flugvél:

  1. Drekka nóg af vatni og jafnvel nota saltdropa í nefið til að halda því röku.
  2. Þvo hendurnar reglulega með spritti.
  3. Strjúka yfir sætisborð með sótthreinsiklút áður en það er notað.
  4. Forðast að nota sætisvasana.
  5. Kveikja á loftræstingunni og láta hana blása rétt fyrir framan andlitið til að bægja frá bakteríum. Loftið í kerfinu fer í gegnum síur sem stoppa langflesta gerla.
  6. Reyna að fá nýtt sæti ef sessunauturinn hóstar og hnerrar í sífellu.
  7. Ef lengi er slökkt á loftkælingunni þá er hættara á því að bakteríur berist um farþegarýmið. Því skal láta áhöfnina vita ef loftræstikerfið stöðvast í lengri tíma.
  8. Ekki nota teppi og kodda.

Að lokum mælist blaðið til þess að ferðamenn hafi í huga að boxin sem notuð eru í öryggishliðinum eru líklega full af gerlum, meðal annars vegna þess að skór farþega eru oftar en ekki settir ofan í þau.

NÝJAR GREINAR: 10 ódýrustu lyftukortin í ÖlpunumFerðaminningar Steinars Braga

Mynd: zen/Creative Commons