Þrjú þúsund króna aukagjald hjá Easy Jet

Neytendayfirvöld í Bretlandi vilja banna flugfélögum að auglýsa fargjöld án aukakostnaðar. Easy Jet er eina félagið sem hingað flýgur sem hefur þennan háttinn á.

Þeir sem bóka sér far frá Íslandi á heimasíðu flugfélaganna eru vanir að fá upp á skjáinn verð með öllu strax á fyrstu síðu bókunarferlisins. Með tilkomu Easy Jet flækist málið því þar á bæ bætist við, í lok pöntunar, bókunargjald upp á 10 pund (1920 kr.) og kreditkortagjald sem nemur 2,5 prósentum en að lágmarki 6 pund (1150 kr.). Fargjald fyrir einstakling hækkar því að minnsta kosti um rúmar þrjú þúsund krónur áður en bókunin er staðfest.

Þessir starfshættir Easy Jet fara fyrir brjóstið á breskum yfirvöldum. Þau vilja að félagið bæti þessum aukakostnaði við auglýst fargjöld og einnig þau verð sem eru til sýnis í fyrsta skrefi netbókunar því farþegar komast ekki hjá að greiða þau. Ólíkt til dæmis gjöldum vegna farangurs.

Lággjaldaflugfélagið Ryanair stundar sama leik og Easy Jet og forsvarsmenn þess hafa mótmælt þessari kröfu yfirvalda og segjast ekki vera að rukka þóknun vegna kreditkortagreiðslna heldur aðeins gjald sem stendur straum af rekstri heimasíðna félagsins.

TENGDAR GREINAR: Ekki svo einfalt með Easy Jet
NÝJAR GREINAR: Svona minnkar þú líkurnar á að veikjast í flugvél10 ódýrustu lyftukortin í Ölpunum

Mynd: Easy Jet