Dýrari utanlandsferðir vegna mengunargjalds

Umdeild ákvörðun Evrópussambandsins um að krefjast losunargjalda af flugfélögum er farin að skila sér út í verðlagið. Kínverjar neita að borga.

Um áramót gengu í gildi reglur sem kveða á um að öll flugfélög sem fljúga í Evrópu skuli tryggja sér losunarkvóta fyrir kolefnisútblástur. Flugrekendur með bækistöðvar utan álfunnar þurfa einnig að hafa kvóta ætli þeir að fljúga til Evrópulandanna.

Í upphafi fá öll flugfélög 85 prósent af kvótanum gefins en það virðist ekki ætla að koma í veg fyrir að þessi nýju opinberu gjöld skili sér út í verðlagið. Því á mánudaginn hóf bandaríska flugfélagið Delta að rukka farþega sína aukalega um þrjá dollara fyrir hverja ferð til og frá Evrópu. Það samsvarar um 750 íslenskum krónum fyrir þá sem bóka báðar leiðir. Delta flýgur milli Keflavíkur og New York á sumrin.

Samkvæmt frétt USA Today vill talsmaður fyrirtækisins þó ekki staðfesta að nýja gjaldið sé til komið vegna kröfunnar um losunarkvóta. Þýska flugfélagið Lufthansa mun einnig vera að íhuga sambærileg aukagjöld.

Kínverjar segjast ekki ætla að borga

Stjórnvöld í Bandaríkjunum, Kanada, Indlandi og Kína hafa öll mótmælt þessu evrópska losunargjaldi og árangurslaust reynt að fá Evrópudómstólinn til að fella það niður. Í vikunni tilkynntu svo samtök fjögurra stærstu flugfélaga í Kína að þau myndu ekki borga gjaldið. Kínversku félögin verða því sektuð ef þau halda áfram flugi til Evrópu kvótalaus samkvæmt frétt BBC.

Evrópusambandið áætlar að nýju gjöldin muni hækka farmiðaverðið um tvær til tólf evrur. Það jafngildir um það bil 300 til 1900 krónum. Flugfarþegar hér á landi mega því búast við sambærilegum hækkunum.

NÝJAR GREINAR: Við fáum meira frí í árFerðalag ferðatöskunnar án okkar

Mynd: Mynd: Wikicommons / Juergen Lehle