Flugferðum fjölgar um fimm prósent

Framboð á flugi frá landinu eykst lítillega í sumar frá því síðasta þrátt fyrir tilkomu fjögurra nýrra félaga. Nýju áfangastaðirnir verða tveir.

Tvær af hverjum þremur brottförum frá Keflavíkurflugvelli í sumar verða á vegum Icelandair. Félagið er langstærsta flugfélagið hér á landi. Iceland Express er annað umsvifamesta fyrirtækið í millilandsflugi því rúmlega tíunda hver vél sem tekur á loft frá Keflavík í júlí er merkt félaginu. Vægi þess hefur þó minnkað töluvert frá síðasta sumri þegar það stóð fyrir nærri því fjórðu hverji ferð.

Þessi samdráttur hjá fyrirtækinu er helsta ástæða þess að flugum fjölgar aðeins um tæplega fimm prósent í júlí, í samanburði við sama tíma í fyrra, þrátt fyrir tilkomu fjögurra nýrra flugfélaga og aukinna umsvifa hjá Icelandair.

Vægi nýju félaganna Easy Jet, Norwegian og Primera Air er lítið en Wow Air verður þriðji stærsti aðilinn í millilandaflugi eins og sjá má á töflunni hér að neðan sem byggð er á upplýsingum af heimasíðu Keflavíkurflugvallar og fyrirtækjanna sjálfra.

 

Samanburður á fjölda brottfara á viku frá Keflavíkurflugvelli í júlí 2011 og 2012:

Flugfélag Brottfarir á viku 2011 Vægi Brottfarir á viku 2012 Vægi
Icelandair 183 64% 203 67,5%
Iceland Express 69 24% 32 11%
Wow Air 23 8%
Air Berlin 10 4% 10 4%
SAS 6 2% 6 2%
Delta 5 1,5% 5 1,5%
Lufthansa 4 1,5% 4 1%
German Wings 3 1% 3 1%
Easy Jet 3 1%
Norwegian 3 1%
Air Greenland 2 0,5% 2 0,5%
Niki 2 0,5% 2 0,5%
Transavia 2 0,5% 2 0,5%
Primera Air 2 0,5% 2 0,5%
Samtals ferðir 286 300

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Denver og Lyon eru nýju nöfnin

Í ár bætast tveir áfangastaðir við listann yfir þá staði sem flogið er beint til frá Keflavík. Fyrst er það Denver í Bandaríkjunum en Icelandair flýgur þangað fjórum sinnum í viku frá og með vorinu. Lyon í Frakklandi verður líka í fyrsta skipti valmöguleiki fyrir íslenska flugfarþega þegar Wow Air hefur starfssemi í sumarbyrjun. Að auki bjóða ferðaskrifstofurnar upp á ferðir til staða sem ekki eru hluti af sumardagskrá flugfélaganna.

NÝJAR GREINAR: Vinsælustu ferðamannastaðirnirVökvabannið vonandi að renna sitt skeið á enda

Mynd: Túristi