Frítt fyrir nýjar flug­leiðir

Þau flug­félög sem bjóða upp á ferðir til borga sem hingað til hafa ekki verið hluti af leiða­kerfi Kefla­vík­ur­flug­vallar fá felld niður lend­inga­gjöld fyrsta veturinn og háa afslætti þar á eftir. Tals­menn Iceland Express og Icelandair fagna þessari nýju stefnu flug­vall­arins.

Það kostar um þrjú hundruð þúsund krónur að lenda þétt­skip­aðri farþega­þotu á Kefla­vík­ur­flug­velli. Nú geta hins vegar þau flug­félög sem bjóða uppá ferðir til nýrra áfanga­staða komist hjá því borga þessi lend­inga- og farþega­gjöld. Um er að ræða nýja stefnu hjá Isavia, fyrir­tækinu sem rekur flug­völlinn, til að fjölga flug­leið­unum frá Keflavík.

Aðeins þau fyrir­tæki sem taka upp áætl­un­ar­flug til nýrra staða yfir vetr­ar­tímann fá öll gjöldin felld niður. Yfir sumar­tímann fæst 75 prósent afsláttur fyrsta árið en hann fer svo stig­lækk­andi næstu tvö ár. Gerð er krafa um að ferð­irnar séu að minnsta kosti tvær í viku.

Fellur í góðan jarðveg

Flug­félög sem uppfylla kröfur þessa nýja afslátt­ar­kerfis geta sparað sér nokkrar millj­ónir á mánuði í gjöld til Isavia. Guðjón Arngrímsson, upplýs­inga­full­trúi Icelandair, segir forsvars­menn félagsins ánægða með þá heils­ársáherslu sem er í nýja kerfinu og það muni hjálpa við að lengja flug­tímann á ákveðna áfanga­staði og hefja flug yfir vetr­ar­tímann jafnvel strax næsta vetur. Hjá Iceland Express segir Heimir Már Pétursson þetta vera jákvætt skref en muni ekki hafa nein áhrif á áætlanir félagsins fyrst um sinn.

Tvær nýjar flug­leiðir

Af þeim stöðum sem flogið verður beint til frá Keflavík í ár eru aðeins tveir nýir, Denver og Lyon. Flug Icelandair til fyrr­nefndu borg­ar­innar uppfyllir kröfur Isavia um fjölda ferða á viku og því ætti félagið rétt á afslætti. Aðspurður um það segir Guðjón Arngrímsson að ákvörð­unin um Denverflugið hafi verið tekin áður en þetta nýja fyrir­komulag var komið inn í myndina. Það sé ekki ljóst hvernig sú flug­leið fellur inn kerfið en farið verði yfir það með Isavia á næst­unni. Flug Wow Air til Lyon uppfyllir hins vegar ekki skil­yrði um fjölda flug­ferða á viku því aðeins verður flogið einu sinni.

TENGDAR GREINAR: Kynn­ingar á Íslands­flugi skila árangriÓstund­vísi algengari hér en í nágranna­lönd­unum
NÝJAR GREINAR: Besta flug­fé­lagið þriðja árið í röðFlug­ferðum fjölgar um fimm prósent

Mynd: Túristi