Frítt fyrir nýjar flugleiðir

Þau flugfélög sem bjóða upp á ferðir til borga sem hingað til hafa ekki verið hluti af leiðakerfi Keflavíkurflugvallar fá felld niður lendingagjöld fyrsta veturinn og háa afslætti þar á eftir. Talsmenn Iceland Express og Icelandair fagna þessari nýju stefnu flugvallarins.

Það kostar um þrjú hundruð þúsund krónur að lenda þéttskipaðri farþegaþotu á Keflavíkurflugvelli. Nú geta hins vegar þau flugfélög sem bjóða uppá ferðir til nýrra áfangastaða komist hjá því borga þessi lendinga- og farþegagjöld. Um er að ræða nýja stefnu hjá Isavia, fyrirtækinu sem rekur flugvöllinn, til að fjölga flugleiðunum frá Keflavík.

Aðeins þau fyrirtæki sem taka upp áætlunarflug til nýrra staða yfir vetrartímann fá öll gjöldin felld niður. Yfir sumartímann fæst 75 prósent afsláttur fyrsta árið en hann fer svo stiglækkandi næstu tvö ár. Gerð er krafa um að ferðirnar séu að minnsta kosti tvær í viku.

Fellur í góðan jarðveg

Flugfélög sem uppfylla kröfur þessa nýja afsláttarkerfis geta sparað sér nokkrar milljónir á mánuði í gjöld til Isavia. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir forsvarsmenn félagsins ánægða með þá heilsársáherslu sem er í nýja kerfinu og það muni hjálpa við að lengja flugtímann á ákveðna áfangastaði og hefja flug yfir vetrartímann jafnvel strax næsta vetur. Hjá Iceland Express segir Heimir Már Pétursson þetta vera jákvætt skref en muni ekki hafa nein áhrif á áætlanir félagsins fyrst um sinn.

Tvær nýjar flugleiðir

Af þeim stöðum sem flogið verður beint til frá Keflavík í ár eru aðeins tveir nýir, Denver og Lyon. Flug Icelandair til fyrrnefndu borgarinnar uppfyllir kröfur Isavia um fjölda ferða á viku og því ætti félagið rétt á afslætti. Aðspurður um það segir Guðjón Arngrímsson að ákvörðunin um Denverflugið hafi verið tekin áður en þetta nýja fyrirkomulag var komið inn í myndina. Það sé ekki ljóst hvernig sú flugleið fellur inn kerfið en farið verði yfir það með Isavia á næstunni. Flug Wow Air til Lyon uppfyllir hins vegar ekki skilyrði um fjölda flugferða á viku því aðeins verður flogið einu sinni.

TENGDAR GREINAR: Kynningar á Íslandsflugi skila árangriÓstundvísi algengari hér en í nágrannalöndunum
NÝJAR GREINAR: Besta flugfélagið þriðja árið í röðFlugferðum fjölgar um fimm prósent

Mynd: Túristi