Borgar sig að fljúga til útlanda á nóttunni?

Boðið er uppá næturflug frá Keflavík til nokkurra áfangastaða í Evrópu. Þrátt fyrir óheppilegan flugtíma er þetta ekki alltaf ódýrasti kosturinn.

Þeir sem eru á leið til Kaupmannahafnar, Parísar og Berlínar í sumar eiga þess kost að verja fyrstu nótt ferðarinnar á flugi yfir til meginlandsins. Sama val hafa þeir sem ætla til þýsku borganna Hamborgar, Stuttgart og Kölnar eða danska bæjarins Billund.

Fyrirfram mætti reikna með að það kostaði minna að ferðast á nóttunni en á daginn vegna þess hve nætursvefninn er flestum dýrmætur. En samkvæmt niðurstöðum verðkönnunar Túrista þá spara farþegarnir lítið með því að taka næturflugið. Nema þá auðvitað hótelgistinguna fyrstu nóttina. Ef aðeins er litið á fargjaldið þá er munurinn á farinu frá Keflavík um nótt eða dag oft sáralítill.

Í könnuninni voru borin sama verð á flugi til nokkurra áfangastaða í júlí. Kostnaður vegna heimferðar var ekki kannaður. Verðin voru fengin á heimasíðu viðkomandi flugfélaga sunnudaginn 12. febrúar.

Berlín

Airberlin flýgur til nokkurra þýskra borga frá Keflavík á sumrin og aðeins á nóttunni. Þeir sem fara með félaginu til höfuðborgar Þýskalands geta fengið farið, aðra leið, á 24.918. Það er þrjú þúsund krónum ódýrara en lægsta farið hjá Iceland Express og hjá Wow Air kostar farið 28.800. Bæði íslensku fyrirtækin fljúga hins vegar á daginn. Með Lufthansa er farið alla jafna mun dýrara þó félagið fljúgi á nóttunni.

Billund

Auk Iceland Express og Icelandair flýgur Primera Air, í samstarfi við Heimsferðir, til jóska bæjarins. Icelandair er það eina sem flýgur um miðja nótt og þar kostar lægsta farið í júlí 18.980 en það verð er þó aðeins laust örfáa daga. Annars er verðið nokkru hærra. Iceland Express býður ferðina, aðra leið, á 21.900 krónur og flogið er seinnipartinn. Ekki er hægt að bóka flug aðra leiðina með Primera Air á netinu en fargjaldið er tæplega tuttugu þúsund krónur.

Hamborg

Næturflug Icelandair til næst stærstu borgar Þýskalands kostar frá 19.900 krónum. Það er fimm þúsund krónum minna en farið með Airberlin. Hins vegar geta þeir sem ekki vilja ferðast á nóttunni fundið far með Lufthansa á daginn en verðið er töluvert hærra en hjá hinum.

Kaupmannahöfn

Icelandair flýgur nokkrum sinnum á dag til Kaupmannahafnar yfir sumarið og fyrsta brottför dagsins er rétt eftir miðnætti. Þetta flug er alla jafna einn af ódýrustu kostunum hjá Icelandair en þó ekki alltaf. Verðið í júlí er frá 18.980, ef önnur leiðin er bókuð. Ódýrasta farið með Iceland Express á daginn kostar hins vegar 17.900 en það er aðeins í boði á þremur dagsetningum í byrjun júlí. Annars er verðið frá 19.900 krónum hjá félaginu. Wow Air býður farið aðra leið á 18.800 og flogið er seinnipartinn eða snemma morguns. Af þessu má ljóst vera að munurinn á farinu um nótt og yfir daginn er lítill sem enginn.

Köln

Það eru Wow Air og German Wings sem keppa um hylli þeirra sem ætla til Kölnar í sumar. Það síðarnefnda flýgur á nóttunni og kostar farið innan við 22.000 krónur að viðbættum rúmlega fimmtán hundruð krónum fyrir innritaðan farangur. Wow selur sætið hjá sér fyrir tæpar 27.000. Munurinn á dag- og næturtöxtum á ferðalagi til Kölnar er því lítill ef meira en handfarangur er tekinn með.

París

Það eru Icelandair og Transavia sem fljúga til borgar ljósanna á nóttunni. Fyrrnefnda félagið flýgur þangað líka á daginn líkt og Iceland Express og Wow Air. Þeir sem horfa aðeins í verðið ættu að bóka hjá Transavia því þar kostar flugið í júlí frá 17.856 krónum svo lengi sem ferðast er með litla tösku. Transavia rukkar nefnilega hátt í 2500 krónur fyrir innritaðan farangur, aðra leiðina. Farið með Icelandair og Iceland Express kostar tæpar tuttugu þúsund. Wow Air rukkar hins vegar tæpar 27.000 krónur fyrir farið til Parísar í júlí. Munurinn á því að fljúga um nótt eða dag til Frakklands er því alla jafna sáralítill ef nokkur.

Stuttgart

Þýska lággjaldaflugfélagið German Wings fer til Stuttgart á nóttunni frá Keflavík og kostar ódýrasta farið rétt um tuttugu þúsund krónur. Þó þarf að reikna með 1600 króna aukagjaldi vegna farangurs. Það kostar hins vegar tæplega tuttugu og þrjú þúsund að fljúga með Wow Air, aðra leiðina, til fyrrum heimavallar Ásgeirs Sigurvinssonar og Eyjólfs Sverrissonar í suðurhluta Þýskalands.

Af upptalningu hér að ofan má sjá að verð á næturflugi ræður sennilega sjaldnast ferðinni hjá fólki. Það eru þættir eins og hótelkostnaður og ferðaplön sem gera það að verkum að sumir eru til í að eyða fyrstu nótt utanlandsferðarinnar á flugi. Næturflug er því fínn valkostur en sjaldnast ódýrari, alla vega ef sumarferðin er bókuð með góðum fyrirvara.

TENGDAR GREINAR: Þetta kostar maturinn um borð
NÝJAR GREINAR: Toppurinn á DanmörkuBorgin þar sem hótelin lækka verðið um helgar

Mynd: Germany.travel