Easy Jet fær góð kjör á Keflavíkurflugvelli

Þrátt fyrir að breska lággjaldaflugfélagið hafi tilkynnt um Íslandsflug sitt í nóvember fær félagið felld niður lendingagjöld á Keflavíkurflugvelli í samræmi við afsláttarprógramm Isavia sem var opinberað í síðasta mánuði.

Ef starfsmaður Easy Jet yrði spurður hvort Luton flugvöllur sé í London væri svarið væntanlega jákvætt. Enda segir á heimasíðu félagsins að flogið verði frá London-Luton til Reykjavíkur frá og með vorinu. Hins vegar líta forsvarsmenn Isavia svo á að Easy Jet ætli að fljúga hingað frá Luton en ekki London. Flugfélagið fær því 75 prósent afslátt af lendinga- og farþegagjöldum í sumar og þau verða felld niður að öllu leyti í vetur. Þetta staðfestir Friðþór Eydal, talsmaður Isavia.

Aðeins gjaldfrjálst fyrir nýja áfangastaði

Næstu tvö ár fær Easy Jet einnig afslætti hér á landi út á flug sitt til og frá Luton. Þetta er í samræmi við nýtt kerfi Keflavíkurflugvallar sem á að létta undir með flugrekendum um hríð vegna þeirrar áhættu sem fylgir því að hefja flug á nýjum leiðum. Afslátturinn getur numið nokkrum milljónum króna á mánuði samkvæmt útreikningum Túrista.

Þetta nýja fyrirkomulag Isavia hefur verið lengi í smíðum og var fyrst birt á heimasíðu flugvallarins í byrjun þessa árs. Áform Easy Jet um flug hingað til lands voru hins vegar opinberuð tveimur mánuðum áður. Þrátt fyrir það mun Easy Jet starfa í samræmi við þetta nýja kerfi.

Kapphlaup um Stansted í vetur

Easy Jet hefði ekki fengið neinn afslátt á Keflavíkurflugvelli ef ferðir félagsins væru frá Gatwick, Stansted eða Heathrow því þá velli nota íslensku félögin fyrir flug sitt til London. Hins vegar var ekki flogið frá Keflavík til Stansted síðasta vetur og því ætti það félag sem fyrst tilkynnir um vetrarflug til Stansted að uppfylla kröfur Isavia líkt og Easy Jet gerir með flugi frá Luton. Sá flugvöllur liggur álíka langt frá höfuðborginni og Stansted gerir.

Að sama skapi ættu áætlunarferðir til Orly flugvallar í París einnig að gefa rétt á niðurfellingu í vetur og sama má segja um fjölmarga minni flugvelli í borgum sem nú þegar eru hluti af leiðarkerfum flugfélaganna hér á landi. Friðþór Eydal vill hins vegar ekki tjá sig um hvort hinar ýmsu flugleiðir uppfylli kröfur Isavia.

TENGDAR GREINAR: Frítt fyrir nýjar flugleiðir Ekki svo einfalt með Easy Jet
NÝJAR GREINAR: Skrifað í skýjunum

HOTELS:COM: Sértilboð á hótelum í London

Mynd: Túristi