ESB ætlar áfram að skera símakostnað túrista niður

Mínútuverð á símtölum ferðamanna í Evrópu hafa farið stiglækkandi síðustu ár fyrir tilstylli ESB. Kröfur um enn meiri lækkanir eru í farvatninu á Evrópuþinginu.

Það kostar tæpar 73 krónur á mínútuna að hringja til Íslands frá Evrópu úr íslenskum síma. Öll símafyrirtækin hér á landi innheimta þetta sama gjald sem byggt er á hámarks reikiverði ESB. Það hefur lækkað um ca. 10 prósent á ári frá 2009. Þann fyrsta júlí næstkomandi mun verðið lækka enn frekar. Þá verður mínútugjaldið 66 krónur, miðað við gengi krónunnar sem notað var til að setja núverandi hámarksverð hér á landi. Ef krónan styrkist hins vegar, líkt og hún hefur gert á tímabilinu, þá mun mínútuverðið lækka enn frekar. Tilefni lækkunarinnar síðustu ár er áætlun Evrópusambandsins í að draga úr símakostnaði á milli aðildarlandanna í þremur skrefum á árunum 2009 til 2012.

Stemning fyrir mun meiri þvingunum

Þessa dagana eru til umræðu á Evrópuþinginu áframhald á þessari áætlun. Verði núverandi tillögur samþykktar mun mínútuverðið fara niður í tæpar fimmtíu krónur eftir tvö ár, ef reiknað er út frá því evrugengi sem notað var til að ákvarða núgildandi hámarksverð. Það er tæplega helmingslækkun frá því að aðgerðirnar hófust fyrir þremur árum. Meðal þingmanna Evrópuþingsins mun hins vegar ríkja nokkur eining um að þvinga símafyrirtækin enn neðar samkvæmt frétt Reuters. Verði það raunin mun það kosta íslenskan túrista 32 krónur á mínútuna að hringja heim úr Evrópureisunni eftir tvö ár, ef gengið helst óbreytt.

Verð á netnotkun í útlöndum og kostnaður við að taka á móti símtölum á meginlandi Evrópu hefur einnig lækkað og munu gera það samhliða hinum verðbreytingunum.

Enginn sem býður betur

Hjá Nova, Símanum, Tal og Vodafone eru verð á símtölum frá Evrópu þau sömu upp á krónu. Er þar miðað við þau hámarksverð sem Evrópusambandið setur og það gengi evru sem Póst- og fjarskiptastofnun ákveður að skuli nota. Samanburður Túrista á verðskrám stærstu símafyrirtækjanna í Bretlandi og Danmörku leiddi í ljós að í þeim löndum sjá símafyrirtækin sér heldur ekki hag í því að bjóða lægra mínútuverð á símtölum frá Evrópu en samkeppnisaðilarnir gera. Hámarksverð ESB er því verðið sem gildir markaðinum.

TENGDAR GREINAR: Frítt net í FlugrútunniÓkeypis á netið á Kastrup
NÝJAR GREINAR: Toppurinn á Danmörku

Mynd: Túristi